Viðskipti innlent

Fjölga ferðum á milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar í vetur

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Skandinavíska flugfélagið SAS boðar tíðari flugferðir til og frá Íslandi.
Skandinavíska flugfélagið SAS boðar tíðari flugferðir til og frá Íslandi. Vísir/getty
Skandinavíska flugfélagið SAS stefnir að því að fjölga áætlunarferðum á milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar í vetur. Flugfélagið sækir í sig veðrið og hyggst bjóða upp á nærri daglegar brottfarir.

Þetta kemur fram í svari forsvarsmanna SAS við fyrirspurn blaðamanns Turista.is.

„Við erum glöð að sjá þennan virkilega góða áhuga á flugleiðinni,“ segir Mariam Skovfoged, blaðafulltrúi SAS.

Síðasta vetur flaug SAS á milli Íslands og Danmerkur þrisvar til fjórum sinnum í viku og því um mikla aukningu að ræða. Ætla má að aukningin sé sárabót þá sem sjá eftir lággjaldaflugfélaginu WOW Air sem varð gjaldþrota í lok mars og skildi eftir sig skarð á flugmarkaði.

Auk Kaupmannahafnarflugsins flýgur SAS á milli Íslands og höfuðborgar Noregs allt árið um kring. Í sumar stendur síðan til að fljúga á milli Keflavíkur og Stokkhólms.

Norska flugfélagið Norwegian tilkynnti í morgun að það hygðist hefja áætlunarflug á milli Íslands og Kanaríeyja í haust. Frá og með 30. október mun Norwegian fljúga tvisvar í viku frá Íslandi til Las Palmas og frá og með 27. október mun flugfélagið bjóða upp á flugferðir til Tenerife fimm sinnum í viku.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×