Skoðun

Þetta er víst honum að kenna!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir skrifar
Steingrímur J. er merkileg persóna og mikið fórnarlamb persónulegra árása. Það er aldrei neitt Steingrími J. að kenna. Alveg sama hvað hann gerir! Þó það „sjáist“ til hans, þá bregst hann við með því að benda reiðilega á einhvern og segja „Já en hvað með það sem hann gerði? Af hverju ertu ekki að skamma hann? Hann er miklu verri en ég.“ Maðurinn var fjármálaráðherra en ber samt ekki ábyrgð á neinu! Hver ber hana þá?!

Það versta er, að þetta virkar hjá kallinum. Svona líka svakalega vel. Hann er sérfræðingur í því að skella skuldinni á aðra, í orðsins fyllstu merkingu. Þessir „hæfileikar“ hans hafa komið berlega fram á Alþingi á undanförnum vikum og augu margra væntanlega að opnast, þannig að vonandi fær hann ekki að komast upp með þessa hegðun mikið lengur.

Skoðum nú aðeins aðgerðir stjórnvalda eftir hrun. Steingrímur hefur í alvöru komist upp með það í nær 10 ár, að skella skuldinni á að „Hér varð hrun!“ og það var sko ekki „mér“ að kenna. Síðan hefur hann spurt, með hneykslunartón,  hvort verið sé að kenna honum um hrunið, auk þess að setja sig í fórnarlambshlutverkið; „Ég tók að mér þetta erfiða hlutverk að taka til eftir hrunið“ eins og hann hafi ekki sóst eftir því hlutverki sjálfur heldur verið að fórna sér fyrir verkefnið.

Það hefði verið betra fyrir alla ef hann hefði sleppt því.

Það getur vel verið að Steingrímur og Jóhanna hafi verið full af vilja til að gera vel, en trú mín á það hefur þó farið minnkandi með hverju árinu. Bæði vegna þess hversu fljótur hann var að því sem fjármálaráðherra að lofa vogunarsjóðunum gulli og grænum skógum, en líka út af því að ef svo væri hefðu hann/hún fyrir löngu haft manndóm í sér til að viðurkenna og leiðrétta mistök sín. Það hafa hann/hún aldrei gert, heldur keppst við að moka yfir þau og fela.

Það virðist ekkert hreyfa við samvisku þeirra að líf tugþúsunda verði aldrei samt eftir aðgerðir þeirra og að draumum allra þessara einstaklinga og framtíðarvonum hafi verið rústað.

Þau fóru kannski inn í rústir hrunsins í gervi björgunarsveitamanna. En ótti er ekki gott veganesti og þau voru svo hrædd við þá sem höfðu varpað sprengjunum, að þau tóku hreinlega upp eldspýtur og kveiktu í öllu því sem eftir var. Síðan helltu þau olíu á eldinn til að tryggja að fórnarlömb hamfaranna gætu nú örugglega enga björg sér veitt.

-------------------------------------

Til að fyrirbyggja algengan misskilning, þá þarf smá millikafla hér:

Jú það varð hrun. Við erum ekki að ræða það hér og ekki kenna Steingrími eða ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur um „Hrunið“. En aðgerðirnar sem farið var í eftir hrun gagnvart þeim sem tekið höfðu bíla- eða fasteignalán hafa bara ekkert með hrunið sem slíkt að gera. Hrunið var eiginlega bara yfirvarpið sem vantaði til að fjármálastofnanir landsins gætu klárað það sem þær hófu fyrir hrun; að eignast Ísland heimili fyrir heimili. Hér er um að ræða meðvitaðar ákvarðanir sem teknar voru með hagsmuni bankanna í huga, þær voru afmarkaðar og óþarfar auk þess sem margar þeirra brutu gróflega á lög- og stjórnarskrárbundnum réttindum neytenda. Þessar aðgerðir settu þúsundir heimila undir ofurvald miskunnarlausra fjármálastofnana sem hefðu aldrei átt að hafa slík vald yfir lífum fólks og afkomu og, á sama hátt og að öll vötn falla til Dýrafjarðar, þá virðast allir þræðir „falla“ til þv. fjármálaráðherra, Steingríms J. Sigfússonar.

-------------------------------------

Að því sögðu vil ég minna á að um hrunið og aðdraganda þess hefur verið gerð Rannsóknarskýrsla Alþingis og svo var fyrrverandi forsætisráðherra látinn svara fyrir afglöp sín í Landsdómi og á endanum sakfelldur fyrir að hafa ekki boðað ríkisstjórnarfund þegar hann hefði átt að gera það.

ENGINN hefur hins vegar verið látinn svara fyrir aðgerðir stjórnvalda EFTIR hrun!

Vegna aðgerða, sem hægt er að rekja beint til Steingríms J. hafa a.m.k. 15.000 fjölskyldur misst heimili sín auk þess sem tugir þúsunda hafa lent í árangurlausum fjárnámum. Árangurslaus fjárnám eru um 127.000 frá hruni, þar af nær 10.000 árið 2018, þannig að enn er ekkert lát á!

Fólk hefur verið dæmt í ánauð á dóms og laga – meira en 10 ára dómur fyrir að taka húsnæðislán og verða um leið fórnarlamb auðgunarbrota!

Það er alveg komin tími til að Steingrímur hætti að horfa niður á heimilin úr forsetastól og ákveði að „sitja ekki þegjandi“ undir þessum ásökunum frekar en öðrum. Einnig væri gott ef hann myndi sýna fram á hvar „rangfærslur“ okkar og „óhróður“ um ríkisstjórn hans og Jóhönnu Sigurðardóttur liggi.

Tilraun til vitrænna samræðna

Fyrir ári síðan reyndi ég að eiga vitrænar „samræður“ við Steingrím J. um þetta. Það gekk vægast sagt ekki vel.

Ég skrifaði honum þrjú opin bréf. Ég sendi honum þau á opinbert netfang hans hjá Alþingi auk þess að birta þau opinberlega því það er komið nóg af feluleikjum og fleiri en ég sem bíða svara við sjálfsögðum spurningum.

Steingrímur ákvað hins vegar að fara með þetta sem prívat póst. Ég hef ekki litið á það sem mitt hlutverk að birta hans bréf en get hins vegar sagt frá þeim í stuttu máli, enda fátt um svör.

Í stuttu máli gekk þetta svona fyrir sig:

Fyrsta bréfi var svarað með því að hann ætti ekki orð yfir þessum ásökunum og að svona órökstuddar fullyrðingar væru ekki svaraverðar. Í öðru bréfi færði ég því nánari rök fyrir máli mínu eins og hann fór fram á. Í svari Steingríms við því bréfi sagðist hann ekki taka þátt í opinberum umræðum „á þessum nótum“ án þess að þær „nótur“ væru skilgreindar nánar. Þriðja bréfi var einfaldlega ekki svarað.

Tenglar á þessi bréf mín eru fyrir aftan greinina og telji Steingrímur mig afbaka svör sín með einhverjum hætti er honum í lófa lagið að leiðrétta það.



Að vera í opinberri stöðu

Ég minni á að maðurinn er í opinberri stöðu. Hann er í vinnu hjá okkur öllum. Honum ber að svara þegar hann er spurður. Sérstaklega þegar aðgerðir hans hafa haft jafn mikil áhrif á jafn marga og raun ber vitni. Þetta er ekki eitthvað „smámál“ sem hann á að geta hunsað með þessum hætti.

Það minnsta sem hann gæti gert er að taka umræðuna og telji hann ásakanir okkar algjörlega úr lausu lofti gripnar, ætti hann að hvetja til þess að fram fari rannsókn á aðgerðum stjórnvalda eftir hrun. Rannsóknarskýrsla heimilanna myndi þá væntanlega hreinsa nafn hans.

En það er alveg frámunalegt virðingarleysi gagnvart fólki sem situr í súpunni af aðgerðum hans að snúa bara upp á sig og neita að svara eins og fýldur krakki.

Ég hef margoft fært rök fyrir ásökunum mínum og það hafa Hagsmunasamtök heimilanna líka gert. Það hefur hins vegar ekki skipt neinu máli, það skal sópa þessum þúsundum heimila undir teppið og passa að þau nái sér aldrei aftur á strik með öllum ráðum. „Ráðin“ eru aðallega þrenns konar:



#1 Þögn og hunsun

Þögn og hunsun eru sterk vopn fyrir fólk í valdastöðum. Þetta er beitt tæki sem veldur því að sá sem spyr eða ber fram ásakanir þarf að endurtaka þær og þegar spurningar, sérstaklega ef í þeim felast ásakanir, eru endurteknar, þá fara þær að hljóma sem árás á þann sem spurður er. Sá aðili getur þá orðið bæði sár og svekktur yfir þessum ásökunum og jafnvel hlotið nokkra vorkunn fyrir. Kaldhæðnin er sú að þetta er yfirleitt aðilinn sem hefur öll tromp á hendi; aðilinn sem er í valdastöðu og með aðgang að fjármagni/embættismönnum/fjölmiðlum sem spyrjendur geta varla látið sig dreyma um. Hann er líka sá aðili sem gæti komið í veg fyrir endurtekningarnar með því einfaldlega að svara.



#2 Útúrsnúningar og yfirlæti

„Ertu að segja að ég/hann hafi valdið hruninu?“ Er spurning sem bæði Steingrímur og stuðningsmenn hans hafa spurt í hneykslunartóni, þó því hafi aldrei verið haldið fram. Þannig er með útúrsnúningi reynt að beina sjónum að því sem einhver annar gerði. Yfirlæti er líka vinsælt, eitthvað í dúr við; „Vina mín, þú verður að gera þér grein fyrir að hér varð hrun“.



#3 Afneitun, reiði, hneykslun og sjálfsvorkunn

„Að halda öðru eins bulli fram“ er dæmi um vinsælan frasa – alltaf án rökstuðnings um hvert „bullið“ sé. „Hann sem fórnaði sér í að hreinsa upp eftir vondu mennina sem ollu hruninu – er þetta þakklætið?“ Maður gæti klökknað! Já hann Steingrímur hefur átt alveg skelfilega bágt og liðið vítiskvalir yfir vanþakklæti og skilningsleysi þeirra sem misst hafa heimili sín vegna þess að hann „neyddist til“ að brjóta lög til að færa þau bönkunum á silfurfati. Já það er margt mannanna bölið og vanþakklæti heimsins (eða þeirra sem misstu heimili sín) mikið.



Skömminni skilað!

Fjölmiðlar hafa því miður tekið þátt í þessum leik og aldrei virðast þeir líta til þess stórkostlega aðstöðumunar sem er á manni í einni æðstu valdastöðu þjóðfélagsins og þeirra sem eru að reyna að hreinsa upp skítinn sem liggur eftir hann og hefur eyðilagt líf, drauma og framtíðarvonir tugþúsunda.

Steingrímur og Jóhanna björguðu ekki neinum nema fjármagnseigendum sem hafa fitnað eins og púkinn á fjósbitanum af eigin glæpum VEGNA aðgerða Ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Ég, persónulega, er bara eitt dæmi af tugþúsundum sem væri bara í ágætismálum í dag ef Steingrímur hefði ekki afhent bönkunum hengingarsnöruna svo þeir gætu sett hana um hálsinn á mér á meðan hann reisti fyrir þá gálgann.

Að sjálfsögðu gerði hann þetta ekki algjörlega einn og sjálfur. En þó margir fleiri hafi þurft að koma að málunum á ýmsum stigum, þá benda ÖLL gögn sem við höfum beint til hans.

Án þess að ætla að taka afstöðu í Landsdómsmáli Geirs Haarde, finnst mér eitthvert samhengi þurfa að vera á milli þess að ráðherra sem svo sannarlega sýndi vítavert kæruleysi fyrir hrun, sé dregin fyrir Landsdóm og látin svara fyrir sakir sínar, á meðan að ráðherra sem lét öll varnaðarorð sem vind um eyru þjóta og seldi heimili landsins í hendur fjármálafyrirtækjanna með skelfilegum afleiðingum, þurfi engu að svara um eitt eða neitt.

Er ekki eitthvað bogið við það?

Það mætti segja að bankarnir hafi haft nóg að gera og ekki skrýtið þó afgreiðslustofnanir þeirra, Sýslumannsembættin, séu að drukkna í verkefnum.

Þessar tölur segja allt sem segja þarf um hversu skelfilega tókst til eftir hrun og það er fyrir löngu kominn tími til að skila skömminni þangað sem hún á heima.

Skömmin er ekki þeirra sem misst hafa heimili sín eða sitja föst í árangurslausum fjárnámum. Það fólk er fórnarlömb auðgunarglæpa banka og fjármálafyrirtækja.

Skömm stjórnvalda og Alþingis er hins vegar mikil fyrir að hafa látið fórnarlömb þessara fjárhagslegu nauðgana taka á sig sektina, sökina og skömmina, og sjá á eftir aleigu sinni og ævistarfi í hendur gerendanna, sem hafa líf þeirra og framtíð í hendi sér.

Já, skömmin er stjórnvalda! Bæði þeirra sem að þessu stóðu með aðgerðum sínum, en líka og ekki síður þeirra ríkisstjórna sem á eftir hafa komið, fyrir að hafa leyft þessum skelfilegu ofsóknum gegn heimilum landsins að viðgangast í 10 ár!

Bankarnir hafa haft nóg að bíta og brenna frá hruni, en ég er bara ekki til í að láta bæði bíta mig og brenna.

Ég vil losna úr snörunni sem Steingrímur afhenti bönkunum og fá líf mitt aftur!

Það er komið nóg og Steingrímur,  þetta er víst þér að kenna!



Ásthildur Lóa Þórsdóttir

Kennari og formaður Hagsmunasamtaka heimilanna

-------------------------------------

Tenglar á opin bréf til forseta Alþingis, Steingríms J. Sigfússonar

 

  1. Steingrímur stoltur en Katrín felur sig
  2. Bjargvættur eða brennuvargur
  3. Forseti Alþingis á flótta



Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×