Innlent

Tvær tölvuárásir gerðar á heimasíðu Isavia í dag

Sylvía Hall skrifar
Guðjón Helgason segir tímasetninguna vissulega vera athyglisverða.
Guðjón Helgason segir tímasetninguna vissulega vera athyglisverða. Vísir/Getty
Tvær tölvuárásir hafa verið gerðar á heimasíðu Isavia í dag og lá heimasíðan niðri um stund. Að sögn Guðjóns Helgasonar, upplýsingafulltrúa Isavia, er tímasetningin athyglisverð en um var að ræða svokallaða ddos árás þar sem framkölluð er umferð á vefsíðuna með þúsundum sýndarnotenda.

Óprúttnir aðilar náðu því að gera vefsíðuna óvirka en starfsmenn Isavia urðu fyrst varir við árásina síðdegis og lá hún niðri í tvo tíma. Á meðan árásunum stendur er ekki hægt að nálgast upplýsingar um brottfarir og komur á Keflavíkurflugvelli.

Margir stuðningsmenn tyrkneska landsliðsins höfðu hótað að ráðast inn á samfélagsmiðla þeirra sem urðu fyrir barðinu á þeim á samskiptasíðum eftir þvottaburstaatvikið í Leifsstöð og velta því margir fyrir sér hvort Isavia hafi einnig verið fórnarlamb reiðra stuðningsmanna.

„Tímasetningin er vissulega athyglisverð í ljósi atburða dagsins,“ segir Guðjón en getur þó ekkert fullyrt um hverjir standa að baki árásunum.

Tæknimenn Isavia hafa unnið að því að verjast árásunum og er síðan nú að mestu sýnileg notendum. Þó gæti tekið lengri tíma fyrir einhverja notendur að komast inn á vefinn og er beðist velvirðingar á því.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×