Erlent

Metanið á Mars hvarf eins fljótt og það birtist

Kjartan Kjartansson skrifar
Curiosity hefur rannsakað Mars frá árinu 2012. Í síðustu viku mældi jeppinn óvenjumikið metan í loftinu.
Curiosity hefur rannsakað Mars frá árinu 2012. Í síðustu viku mældi jeppinn óvenjumikið metan í loftinu. Vísir/EPA
Styrkur metans í lofthjúpi Mars nærri könnunarjeppanum Curiosity mældist í hefðbundnu horfi í rannsóknum sem jeppinn gerði um helgina. Curiosity hafði greint óvenjuháan styrk metans í síðustu viku og vakti það upp gamla draumóra um að líf gæti verið að finna undir yfirborði nágrannareikistjörnunnar.

Stjórnendur Curiosity ruddu öllum öðrum verkefnum til hliðar um helgina til að fylgja eftir athugunum frá því í síðustu viku. Að sögn New York Times urðu þeir þó fyrir vonbrigðum því metanið virðist hafa horfið. Mælingin í síðustu viku sýndi styrk upp á 21 hluta af milljarði en nú var hann kominn aftur niður í innan við einn hluta af milljarði eins og vera ber á Mars.

Á jörðinni mynda örverur og ýmsar dýrategundir metan. Það getur einnig orðið til við jarðhitaferla. Mælingin í síðustu viku vakti furðu og spennu því að metan er aðeins til í snefilmagni á Mars þar sem sólarljós og efnahvörf við aðstæðurnar sem þar ríkja eyða sameindunum á nokkrum öldum. Metanið sem Curiosity greindi hefði því þurft að vera tiltölulega nýlegt.

„Metanleyndardómurinn heldur áfram,“ segir Ashwin R. Vasavada, leiðangursvísindamaður Curiosity, sem heitir því að teymi hans muni reyna sitt besta til að komast til botns í hvaða metanið kemur.


Tengdar fréttir

Metanfundur vekur vonir um líf á Mars

Á jörðinni er metan meðal annars afurð lífvera. Fundurinn á Mars gæti verið vísbending um að einhvers konar örverur gæti verið að finna undir yfirborðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×