Innlent

Reykhólahreppur auglýsir veglínu um Teigsskóg

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hér sést veglínan um Teigsskóg í vestanverðum Þorskafirði.
Hér sést veglínan um Teigsskóg í vestanverðum Þorskafirði. Grafík/Vegagerðin.
Reykhólahreppur hefur auglýst aðalskipulagsbreytingu vegna legu Vestfjarðavegar um Gufudalssveit, frá Bjarkarlundi að Skálanesi við Þorskafjörð. Auglýsingin er birt fimm mánuðum eftir að hreppsnefnd Reykhólahrepps samþykkti með þremur atkvæðum gegn tveimur að velja Teigsskógarleiðina. 

Sjá hér: Reykhólahreppur valdi ÞH-leið um Teigsskóg. 

Þar með er hin umdeilda veglína um Teigsskóg komin í lögformlegt athugasemdaferli, sem er forsenda þess að skipulagsbreytingin verði staðfest og að sveitarfélagið geti gefið út framkvæmdaleyfi. Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er gefinn tveggja mánaða frestur til að gera athugasemdir, til sunnudagsins 25. ágúst.

Teigsskógarleiðin gerir ráð fyrir að veglínan liggi þvert yfir mynni Gufufjarðar og Djúpafjarðar og að Þorskafjörður verði jafnframt þveraður á móts við Þórisstaði.Teikning/Vegagerðin.
Í auglýsingu Reykhólahrepps segir að nýja veglínan fylgi fyrri línu í megindráttum en víða á leiðinni séu nokkur frávik. Þá feli breytingin í sér að nýjar námur, vegna vegagerðar, eru færðar inn á skipulag og fullfrágengnar námur, sem hætt er að nota, eru felldar út. 

Nálgast má tillöguna að breytingu á aðalskipulaginu, ásamt umhverfisskýrslu, á heimasíðu Reykhólahrepps. 

Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri kvaðst í samtali við Stöð 2 í janúar vonast til að hugsanlegum kærumálum yrði lokið fyrir áramót. Hún vonaðist jafnframt til að geta boðið verkið út í lok ársins og geta hafið framkvæmdir á vormánuðum 2020, eins og heyra má hér:


Tengdar fréttir

Samþykktu að leiðin um Teigsskóg verði auglýst

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti á aukafundi í gær, með tveimur atkvæðum gegn engu, að auglýsa tillögu sem gerir ráð fyrir að Vestfjarðavegur verði lagður um Teigsskóg.

Reykhólahreppur valdi ÞH-leið um Teigsskóg

Hreppsnefnd Reykhólahrepps samþykkti á fundi sem lauk nú á þriðja tímanum að setja veglínu um Teigsskóg inn á aðalskipulag sveitarfélagsins. Það var samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×