Þrír af þeim níu hópum sem valdir voru til þátttöku í verkefni Reykjavíkurborgar um ódýrar íbúðir fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur hafa fengið fullgild lóðarvilyrði frá borginni. Rætt var um stöðu verkefnisins á fundi borgarráðs á fimmtudaginn.
Þessi þrjú verkefni sem eru lengst komin eru á vegum félaganna Frambúðar, sem þróar byggð í Skerjafirði, Vaxtarhúss, sem hyggst byggja á Sjómannaskólareit, og Urðarsels sem fékk úthlutað reit í Úlfarsárdal.
Til viðbótar hefur borgarráð samþykkt að veita fimm verkefnum aukinn frest til að tryggja fjármögnun eiginfjár sem er 20 prósent af áætluðum byggingarkostnaði. Félögin Þorpið og Hoffell sem eru að þróa hagkvæmt húsnæði í Gufunesi hafa þegar skilað gögnum um fjármögnun til borgarinnar. Samkvæmt áætlunum verkefnisins er gert ráð fyrir að umræddar framkvæmdir geti hafist á næstu 12 til 24 mánuðum.
Hins vegar ákvað félagið Heimavellir að draga sig út úr verkefninu en það hafði fengið vilyrði fyrir reit á Veðurstofuhæð. Félagið Variat ákvað í kjölfarið að færa sitt verkefni frá Bryggjuhverfinu yfir á Veðurstofuhæð.
Þá samþykkti borgarráð á fundi sínum að slíta viðræðum við félagið Abakus vegna uppbyggingar við Bryggjuhverfi þar sem engum gögnum hafði verið skilað innan tilskilins tímafrests. Verður öðrum teymum sem tóku þátt í verkefninu því boðið að koma að því verkefni.
