Innlent

Bresk Spitfire-orustuvél úr síðari heimsstyrjöld lendir í Reykjavík

Kristján Már Unnarsson skrifar
Flugvélin kallast Silver Spitfire og er á leið umhverfis jörðina.
Flugvélin kallast Silver Spitfire og er á leið umhverfis jörðina. Mynd/Silverspitfire.com
Ein sögufrægasta flugvél síðari heimsstyrjaldar, Spitfire-orustuflugvél, er væntanleg til Reykjavíkurflugvallar á morgun, þriðjudag. Tveir breskir flugmenn stefna að því að fljúga henni umhverfis jörðina á næstu fjórum mánuðum til að heiðra breska flugvélasmíði og minnast flugvélar sem breytti heimssögunni.

Fylgdarvél af gerðinni Pilatus PC-12 fylgir Spitfire-vélinni. Um borð í henni verða, auk flugmanna, leiðangursstjóri, flugvirki og kvikmyndatökulið. Lesa má um leiðangurinn og sögu vélarinnar á Silverspitfire.com. 

Þessi tiltekna vél kallast Silver Spitfire, smíðuð árið 1943 af Vickers Supermarine í Castle Bromwich við Birmingham. Hún tók þátt í 51 loftorustu í síðari heimsstyrjöld, þar á meðal innrásinni í Normandí.

Leiðangurinn lenti síðdegis í bænum Lossiemouth í Norður-Skotlandi. Þaðan er stefnt að því að fljúga til Íslands á morgun með millilendingu í Færeyjum en hvort sú áætlun stenst ræðst af veðri á leiðinni. Áhafnir vélanna áætla að hvílast yfir nótt í Reykjavík áður en flogið verður áfram áleiðis til Kulusuk á Grænlandi.

Svona leit flugvélin út á árum síðari heimsstyrjaldar.Mynd/Silverspitfire.com.
Lagt var upp í hnattflugið eftir hádegi í dag frá Chichester-Goodwood flugvellinum við suðurströnd Englands. Hann var einn af mörgum flugvöllum breska flughersins í orustunni miklu um Bretland, The Battle of Britain. Þótt Hawker Hurricane-orustuvélin hafi reynst árangursríkari í baráttunni gegn flugflota Þjóðverja var Spitfire hampað sem sigurtákni Breta, enda hraðfleygasta vél þeirra. 

Supermarine Spitfire er raunar talin eiga metið sem hraðfleygasta flugvél heims með hefðbundinni loftskrúfu. Í síðari heimsstyrjöld var dæmi um að hún hefði náð 998 kílómetra hraða árið 1944 og árið 1952 mældist Spitfire á 1.110 kílómetra hraða en flugmaðurinn var þá í neyðardýfu í njósnaleiðangri yfir Kína.

Alls voru yfir tuttugu þúsund eintök smíðuð af mismunandi útgáfum Spitfire á árunum 1938 til 1948. Núna eru eftir í flughæfu ástandi aðeins um fimmtíu vélar í heiminum.

Fyrir áhugamenn um flugsögu síðari heimsstyrjaldar hefur þetta sumar verið óvenju gjöfult í Reykjavík, með Catalina-flugbátum og þristum, eins og sjá mátti meðal annars í þessari frétt:


Tengdar fréttir

Loftbelgurinn flaug bara örstutt í kvöld

Loftbelgurinn, sem kominn er til landsins vegna flugsýningarinnar í Reykjavík á morgun, fór aftur á loft í kvöld, í tengslum við beina útsendingu í fréttum Stöðvar 2.

Loftbelgnum brást bogalistin í beinni

Það er gömul saga og ný að það getur allt gerst í beinni útsendingu. Það sannaðist heldur betur í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld þegar áætlað var að sýna frá í beinni útsendingu, í fyrsta sinn í íslenskri sjónvarpssögu, frá loftbelgsflugi og hugðist Kristján Már Unnarsson, fréttamaður Stöðvar 2 vera um borð í körfu loftbelgsins.

Katalínan lendir á Þingvallavatni

Áhöfn Catalina-flugbátsins, sem lenti í Reykjavík í dag, eftir nærri sex tíma flug frá Skotlandi, ákvað óvænt á fjórða tímanum að fara í útsýnisflug um suðvesturhornið.

Þristarnir streyma inn til Reykjavíkur

Alls fjórtán flugvélar frá stríðsárunum, svokallaðir þristar, millilenda á Íslandi næstu tvo sólarhringa á leið sinni frá Bandaríkjunum til Evrópu til að minnast innrásarinnar í Normandí.

Önnur Catalina lenti óvænt í Reykjavík

Catalina-flugbátur úr síðari heimsstyrjöld birtist óvænt í Reykjavík síðdegis. Tók hann tignarlegan hring yfir borginni áður en hann lenti á Reykjavíkurflugvelli um hálfsexleytið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×