Þrjár Boeing-farþegaþotur á vegum Icelandair flugu lágflug yfir höfuðborgarsvæðið í gær.
Vakti það nokkra athygli borgarbúa, þeirra á meðal ráðgjafans Greips Gíslasonar:
Hvert var tilefni lágflugs @Icelandair-vélar á leið frá Dyflinni til Keflavíkur yfir #Reykjavík rétt í þessu? pic.twitter.com/XU8l4p2ff7
— Greipur Gíslason (@GreipurGisla) August 15, 2019
Á vefsvæðinu Flugblogg er ástæðan lágflugsins sögð vera útför flugmannsins Sigurvins Bjarnasonar, sem starfaði hjá Icelandair. Hann lést í flugslysinu á Haukadalsflugvelli í lok júlí síðastliðins og fór útför hans fram frá Hallgrímskirkju í gær. Hann var 64 ára gamall og lét eftir sig eiginkonu, þrjú uppkomin börn og fimm barnabörn
Myndir frá athöfninni og flugleiðum vélanna þriggja, sem allar voru af gerðinni Boeing 757, má sjá hér að neðan.
Vélarnar voru á leið til Keflavíkur; ein frá Kaupmannahöfn, önnur frá Dyflinni og sú þriðja frá Ósló. Eins og sjá má af myndunum lögðu þær allar lykkju á leið sína til að fljúga yfir höfuðborgarsvæðið, ein þeirra flaug jafnvel í heilan hring úti fyrir Álftanesi.