Viðskipti innlent

Flugvélaleigur, rekstrarfélög og þýska lögreglan á meðal kröfuhafa

Andri Eysteinsson skrifar
Kröfur í þrotabú flugfélagsins WOW Air nema rúmlega 138 milljörðum króna.
Kröfur í þrotabú flugfélagsins WOW Air nema rúmlega 138 milljörðum króna. Vísir/Egill
Kröfur í þrotabú flugfélagsins WOW Air nema rúmlega 138 milljörðum króna en 5964 kröfur bárust fyrir lok kröfulýsingarfrests þann 3. ágúst síðastliðinn. Ekki hefur verið tekin afstaða til krafanna en farið verður yfir kröfuskrá á skiptafundi WOW Air 16. ágúst næstkomandi.

Kröfur frá flugvélaleigum og öðrum fyrirtækjum innan flugbransans eru eins og gefur að skilja fyrirferðamiklar í þrotabúi WOW Air.

CIT Aerospace International gerir til að mynda 52,8 milljarða króna kröfu í búið, Tungnaa Aviation Leasing gerir tæplega þriggja milljarða kröfu í búið (2.968.984.226 kr.) og hið sama gildir um leiguna Sog Aviation Leasing. (3.063.607.764 kr.). Þá gerir flugvélaleigan ALC, sem átt hefur í útistöðum við Isavia eftir fall WOW Air, 9 milljarða króna kröfu í búið.

Flugmanna- og flugfreyjufélögin á meðal kröfuhafa

Rekstraraðili flugvalla Kaupmannahafnar, Copenhagen Airports A/S, gerir 15,8 milljóna kröfu og flugvélahreyflaframleiðandinn Rolls Royce leggur fram 22 milljarða króna kröfu. Þá gerir flugtengda prentsmiðjan Printavia 25 milljóna króna kröfu en fyrirtækið framleiðir til að mynda brottfararspjöld og farangursmiða. Hreyflaframleiðandinn CFM International gerir 135 milljóna kröfu.

Íslenska flugmannafélagið gerir þá kröfu upp á 47,1 milljón króna en einnig má finna kröfur fjölmargra félagsmanna þeirra í kröfuskrá. Sama er uppi á teningunum hjá flugfreyjum WOW Air en Flugfreyjufélag Íslands er skráð fyrir 16.794.081 króna kröfu.

WOW air varð gjaldþrota í lok mars.vísir/vilhelm
Þá gera ýmsar erlendar stofnanir og borgir kröfu í búið. Tollskrifstofan í Frankfurt gerir 40 milljóna kröfu. Rekstraraðila flugvalla Parísarborgar gera 21 milljóna kröfu í búið á meðan bandarísku borgirnar Chicago og St. Louis, sem báðar voru á meðal áfangastaða WOW í Bandaríkjunum gera kröfur að andvirði 44,6 milljóna annarsvegar (Chicago) og 44,5 milljóna hinsvegar (St.Louis).

Dótturfyrirtæki U.S. Bancorp, Elavon og U.S. Bank National Association, gera tveggja og rúmlega þriggja milljarða kröfur í búið.

Þá gerir þýska ríkislögreglan 68 milljón króna kröfu í þrotabú WOW Air en skiptafundur fer fram 16. ágúst næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×