Innlent

Strunsaði brjálaður út úr Hallgrímskirkju vegna fána

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hinsegin dagar standa til laugardags þegar gleðigangan fer fram.
Hinsegin dagar standa til laugardags þegar gleðigangan fer fram. Vísir/Vilhelm

Ferðamaður frá Bandaríkjunum strunsaði út úr Hallgrímskirkju í dag. Ástæðan var sú að honum blöskraði fáni sem lá á kórtröppunum og blasti við söfnuði og öllum þeim sem komu í hlið himins, eins og það er orðað á heimasíðu Hallgrímskirkju.

Fáninn sem um ræðir er regnbogafáninn sem sjá má víða í höfuðborginni sem og annars staðar á landinu í tilefni Hinsegin daga sem haldnir eru í tuttugasta skiptið í ár. 

Óhætt er að segja að fyrrnefndur ferðamaður sé enginn aðdáandi fánans. Eftir að hafa starað á fánann rauk hann út úr kirkjunni og fram í Guðbrandsstofu, í anddyri kirkjunnar.

Þar var kirkjuvörður fyrir svörum.

Gestur: „Afsakaðu, en er þetta regnbogafáni í kirkjunni?“

Kirkjuvörður: „Já, það er rétt.“

Gestur: „Af hverju ætti hann að vera í kirkju?“

Kirkjuvörður: „Af því að við teljum að kærleikur guðs nái til allra óháð kynhneigð þeirra eða uppruna.“

Gestur: „Jesús hefði aldrei tekið þetta í mál.“

Kirkjuvörður: „Jú, það hefði hann.“

Gestur: „Nei, það hefði hann ekki gert.“

Kirkjuvörður: „Jæja, við verðum að vera ósammála um það“

Gestur: „Þetta er ekki kristin kirkja. Þetta er til skammar!“

Fór svo að gesturinn strunsaði út úr kirkjunni.

Á síðu Hallgrímskirkju á Facebook kemur fram að kirkjan standi með fjölbreytileika og litríki lífsins. Hinsegin dagar hófust í vikunni og ná hápunkti með gleðigöngu á laugardaginn.

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×