Fjallað er um málið í frétt Sunday Times sem birtist á vef blaðsins í nótt. Þar er greint frá því að fyrirætlanir Truells um byggingu verksmiðju, sem framleiða á leiðslurnar til að nota í fyrirhugaðan sæstreng til Íslands, í Teesside í norðausturhluta Englands séu í uppnámi sem aldrei fyrr.
Sjá einnig: Times fjallar enn um sæstrengsáhuga Bretans
Í vor var greint frá því að Truell hafi krafist þess að yfirvöld í Bretlandi skilgreini fyrirtækið Atlantic Superconnection sem erlendan raforkuframleiðanda og samþykki lagningu sæstrengs til Íslands. Skilgreiningin myndi gera fyrirtækinu kleift að selja raforku á niðurgreiddu verði og mun það vera stór þáttur í því að Truell geti fengið fjárfesta að verkefninu, sem kallast IceLink. Truell hefur lengi þrýst á bresk stjórnvöld um að greiða götu verkefnisins.

Í bréfinu á Truell að hafa lýst yfir megnri óánægju með það að Claire Perry, þingmaður Íhaldsflokksins og undirmaður Clarks í ráðuneytinu, hafi hafnað verkefninu, einkum í ljósi þess að Clark sjálfur hafi lýst yfir stuðningi við fyrirætlanir Truells. Truell er jafnframt sagður hafa fullyrt í bréfinu að yfirvöld í Þýskalandi hafi haft samband við sig og lýst yfir áhuga á verksmiðjunni. Ekki kemur fram í frétt Sunday Times hvort möguleg staðsetning verksmiðjunnar í Þýskalandi hefði áhrif á hugmyndir Truells um lagningu sæstrengsins til Íslands.
Sæstrengsmál hafa mikið verið í umræðunni á Íslandi að undanförnu vegna þriðja orkupakkans svokallaða sem var samþykktur á Alþingi síðasta mánudag.
Andstæðingar hans vilja meina að með samþykkt hans muni íslensk yfirvöld hafa minna um það að segja hvort hingað verði lagði sæstrengur eða ekki. Sérfræðingar hafa hins vegar bent á að ekkert sé í þriðja orkupakkanum sem feli í sér kvaðir um lagningu sæstrengs.