Sport

Michael Schumacher út­skrifaður af sjúkra­húsinu í París eftir tilraunameðferðina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Schumacher er sigursælasti formúlukappi sögunnar
Schumacher er sigursælasti formúlukappi sögunnar vísir/getty

Meðferð Michael Schumacher á sjúkrahúsinu í París er lokið samkvæmt blaðamanni franska blaðsins Le Parisien.



Hin fimmtuga þýska kappakstursgoðsögn fór í síðustu viku í tilraunameðferð hjá Frakkanum Philippe Menaschés á Georges Pompidou sjúkrahúsinu í París.



Jean-Michel Décugis, blaðamaður Le Parisien, sagði í sjónvarpsviðtali að meðferðinni væri lokið og að Michael Schumacher hefði snúið til baka til síns heima sem er við Genfarvatn í Sviss. Expressen segir frá.



Samkvæmt fréttum Le Parisien þá var ætlunin að sprauta stofnfrumum í Michael Schumacher með það markmið að vinna á bólgum í höfði hans. Starfslið spítalans sagði frá því að Michael Schumacher hafi verið með meðvitund eftir meðferðina.

Philippe Menaschés er frumkvöðull í slíkum lækningum enda sá fyrsti í heimi sem reyndi slíkt á mannfólki. Þessi aðferð er oftast notuð við meðhöndlun á hjartasjúkdómum en hún ætti að hafa jákvæð áhrif á aðra líkamshluta.



Michael Schumacher er að glíma við skelfilegar afleiðingar þess að hafa fengið mikið höfuðhögg þegar hann datt á skíðum í lok desember 2013. Mikil leynd hefur verið yfir ástandi Michael Schumacher eftir slysið og hann hefur ekki sést opinberlega síðan.



Schumacher var haldið sofandi í níu mánuði eftir slysið eða þar til að hann var útskrifaður af spítalanum. Það eina sem var gefið út var að hans biði þá löng og erfið barátta í endurhæfingu sinni.



Michael Schumacher er sá eini sem hefur orðið sjö sinnum heimsmeistari í formúlu eitt en hann vann titilinn meðal annars fimm ár í röð frá 2000 til 2004. Hann á líka fjölda annarra meta í formúlu eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×