Erlent

Sendi­herra Kína segir að­gerðir yfir­valda gegn per­sónu­frelsi tryggja öryggi al­mennings

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Þórgnýr Einar Albertsson skrifa
Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi.
Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi. Vísir/Egill
Sendiherra Kína á Íslandi segir ritskoðun stjórnvalda á netinu og aðrar aðgerðir gegn persónufrelsi hafa tryggt öryggi almennings. Hann segir þá sem ekki hafa komið til Kína hafa ranga ímynd af landinu.

Stjórnvöld í Kína hafa lengi verið gagnrýnd fyrir aðgerðir sínar gegn einstaklingsfrelsi. Mótmælin í Hong Kong, sem upphaflega snerust um frumvarp um að heimila framsal á þessu sjálfstjórnarsvæði til meginlandsins, hafa verið í umræðunni undanfarna fjóra mánuði.

Rúmlega þrjátíu ríki undirrituðu svo yfirlýsingu í september þar sem meðferð uyghur-múslima í Xinjiang-héraði Kína var fordæmd. Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur ítrekað farið fram á að Kínverjar heimili óháða rannsókn á meintum ólögmætum handtökum og mannshvörfum en án árangurs. Stjórnvöld í Kína segja að uyghur-múslimarnir búi nú í endurmenntunarstöðvum þar sem unnið sé gegn öfgavæðingu.

Einnig hefur lengi verið rætt um ritskoðun Kínverja á veraldarvefnum. Stjórnvöld hafa ritskoðað vefsíður, upplýsingar og jafnvel stök orð í því skyni að koma í veg fyrir mótmæli. Til dæmis var myllumerkið #metoo sett á bannlista.

Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, segir að þeir sem ekki hafa farið til Kína gætu haft ranga hugmynd um ástandið þar í landi. Mikilvægt sé að tryggja öryggi. „Kínverjar njóta frelsis í þjóðfélaginu, ástandið í Hong Kong og Xinjiang og netöryggi, kínverskar öryggissveitir hafa gripið til ýmissa ráðstafana til að tryggja öryggi almennings. Þetta er ástandið í Kína,“ segir Jin Zhijian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×