Kristján Viðar Júlíusson, sem sat í fangelsi í sjö og hálft ár vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins, krefur ríkið um 1,6 milljarða króna vegna óréttar, tjóns og miska sem hann varð fyrir. Fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði frá þessu í kvöld.
Bótakrafan er sögð byggja á að Kristán Viðar hafi verið talinn sekur maður að ósekju í tæp fjörutíu ár, auk þess sem hann hafi setið inni í sjö og hálft ár. Ríkið er einnig sagt hafa bakað sér bótaskyldu með blaðamannafundi sem haldinn var um málið árið 1977.
Kristján Viðar var einn fimm einstaklinga sem voru sakfelldir vegna hvarfs Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar. Hæstiréttur tók mál þeirra aftur upp í fyrra og sýknaði þá alla. Kristján Viðar var dæmdur í sextán ára fangelsi og afplánaði sjö ár og fimm mánuði.
Fyrir hafði Guðjón Skarphéðinsson stefnt ríkinu til greiðslu skaðabóta. Hann krefst 1,3 milljarða króna í bætur vegna fimm ára fangelsisvistar sem hann afplánaði.
