Innlent

Varð viðskila við sæþotuhópinn á milli Reykjavíkur og Akraness

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Ýmis verkefni komu á borð lögreglu í gær og í nótt.
Ýmis verkefni komu á borð lögreglu í gær og í nótt. Vísir/vilhelm
Kona varð á níunda tímanum í gærkvöldi viðskila við hóp af fólki á sæþotum á ferð frá Akranesi til Reykjavíkur. Í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að farartæki konunnar hefði orðið vélarvana en hún kom í land um klukkustund síðar. Konan var orðin köld en varð annars ekki meint af.

Lögregla hafði í gær afskipti af manni í íbúðarhúsi í Kópavogi þar sem hann hélt úti ræktun fíkniefna. Lögregla lagði hald á plöntur og búnað.

Þá handtók lögregla konu í annarlegu ástandi við Alþingishúsið á áttunda tímanum þar sem hún var með læti og sparkaði í hurðir hússins. Konan var vistuð sökum ástands í fangageymslu. Hún er einnig grunuð um vörslu fíkniefna.

Tilkynnt var um innbrot og þjófnað í bílageymslu á Seltjarnarnesi. Þar var verðmætum stolið úr bifreið.

Á öðrum tímanum í nótt stöðvaði lögregla bifreið á Kringlumýrarbraut. Ökumaðurinn gaf upp rangt nafn og er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.

Farþegi í bifreiðinni er jafnframt grunaður um hylmingu en farþegi og ökumaður víxluðu nöfnum við afskipti lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×