Viðskipti erlent

Luft­hansa af­lýsir 1.300 flug­ferðum

Atli Ísleifsson skrifar
Búið er að aflýsa sjö hundruð flugferðum í dag og sex hundruð á morgun, föstudag.
Búið er að aflýsa sjö hundruð flugferðum í dag og sex hundruð á morgun, föstudag. EPA
Þýska flugfélagið Lufthansa hefur aflýst um 1.300 flugferðum vegna kjaradeilu starfsmanna. Tveggja daga verkfall starfsmanna í áhöfn véla hófst á miðnætti að staðartíma, en þau berjast fyrir bættum kjörum og vinnuskilyrðum.

Verkfallið hefur áhrif á um 180 þúsund viðskiptavini Lufthansa, og tekur til allra flugferða félagsins frá flugvöllum í Þýskalandi.

Í yfirlýsingu segir að verkfallið hafi ekki áhrif á flugferðir annarra flugfélaga í eigu Lufthansa, meðal annars Eurowings, Swiss, Austrian Airlines og Brussels Airlines.

Búið er að aflýsa sjö hundruð flugferðum í dag og sex hundruð á morgun, föstudag.

Flugfélagið kveðst harma stöðuna og að allt verði gert til að draga úr áhrifum verkfallsins fyrir viðskiptavini. Þannig geti farþegar sem hugðust fljúga milli flugvalla í Þýskalandi skipt flugmiðunum úr fyrir lestarmiða.

Félagsdómur í Frankfurt hafnaði í gærkvöldi kröfu flugfélagsins að setja lögbann á verkfallið. Varaformaður stéttarfélags starfsmanna, Daniel Flohr, segir að það geti komið til frekari verkfalla á hverri stundu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×