Innlent

Birtir staðfestingu aðalskipulags vegna leiðarvals um Teigsskóg

Kristján Már Unnarsson skrifar
Úr Teigsskógi við Þorskafjörð.
Úr Teigsskógi við Þorskafjörð. Vísir/Egill Aðalsteinsson.
Skipulagsstofnun hefur birt staðfestingu á aðalskipulagi Reykhólahrepps vegna Vestfjarðavegar milli Bjarkalundar og Skálaness um Teigsskóg. Skipulagsbreytingin felur jafnframt í sér nánari útfærslu á þverunum yfir Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð auk efnistökusvæða vegna lagningar vegarins. 

Á heimasíðu Skipulagsstofnunar er saga málsins rakin allt frá því fyrsta umhverfismat hófst árið 2003. Raktir eru þeir leiðarvalkostir sem komið hafa til skoðunar, bæði í fyrra umhverfismatsferli á árunum 2003-2006 og því síðara á árunum 2014-2017.

Teigsskógarleiðin styttir Vestfjarðaveg um 22 kílómetra. Veglínan liggur þvert yfir mynni Gufufjarðar og Djúpafjarðar og yfir Þorskafjörð með þverun á móts við Þórisstaði.Teikning/Vegagerðin.
Stofnunin rifjar upp þá meginniðurstöðu sína úr síðasta umhverfsmati að allar framlagðar veglínur hefðu neikvæð áhrif á náttúruminjar sem nytu verndar samkvæmt lögum. Jafnframt lægi fyrir að nauðsyn væri talin á að bæta samgöngur um svæðið og að endurbygging núverandi vegar væri ekki talinn vera raunhæfur valkostur.

Mat Skipulagsstofnunar var að svokölluð leið D2, með jarðgöngum undir Hjallaháls, væri sá kostur sem uppfyllti best markmið laga um að draga eins og kostur væri úr neikvæðum áhrifum framkvæmda. Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti engu að síður svokallaða ÞH-leið, um Teigsskóg.

Veglínur sem Vegagerðin skoðaði sem framtíðarlegu Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. Leið R er svipuð leið A1 en liggur áfram um Reykhóla og Berufjörð.Kort/Vegagerðin.
„Sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur farið yfir og brugðist við þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust á kynningartíma skipulagstillögunnar og samþykkti í október 2019, aðalskipulagsbreytinguna með legu Vestfjarðavegar samkvæmt leið Þ-H og afgreiddi hana til staðfestingar Skipulagsstofnunar,“ segir stofnunin. 

Rakið er að í bókunum við afgreiðslu sveitarstjórnar á aðalskipulagsbreytingunni komi fram að sveitarstjórn hafi leitað allra leiða til að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið og skoðað aðra valkosti en tillögu um leið Þ-H til að koma í veg fyrir áhrif á Teigsskóg og leirur. Ennfremur að sveitarstjórn hafi leitað leiða til að draga úr kostnaði við jarðgangagerð samkvæmt leið D2 og skoðað nýja valkosti, R og A3.

Úr Teigsskógi við Þorskafjörð. Til hægri má sjá malarslóða sem liggur um hluta skógarins.Mynd/Stöð 2.
„Það sé niðurstaða sveitarstjórnar að ef bæta eigi samgöngur og umferðaröryggi í Reykhólahreppi sem fyrst, sé Þ-H eina færa leiðin,“ segir á vef Skipulagsstofnunar. 

Fram kemur að þótt gripið verði til mótvægisaðgerða verði ekki unnt að bæta fyrir sjávarfitjar, sérstæðan birkigróður eða votlendi sem njóti verndar en þó séu settir skilmálar um endurheimt á gróðurlendum, votlendi og birkiskógi og gerð krafa um tilraunir til að endurheimta leirur.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 um staðfestingu aðalskipulagsins:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×