Innlent

Tíu mánaða dómur fyrir hrindingu á Spot staðfestur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dómur var kveðinn upp í Landsrétti í dag.
Dómur var kveðinn upp í Landsrétti í dag. Vísir/EgillA
Landsréttur hefur staðfest tíu mánaða skilorðsbundinn dóm yfir 36 ára karlmanni fyrir stórfellda líkamsárás á skemmtistaðnum Spot í Kópavogi árið 2014.

Maðurinn var fundinn sekur um að hafa hrint öðrum manni með báðum höndum þannig að hann féll í gólfið með þeim afleiðingum að fórnarlambið hlaut lífshættulega og alvarlega höfuðáverka.

Leiddi árásin til heilaskaða, meðal annars með varanlegri heyrnarskerðingu á hægra eyra, tapi á lyktar- og bragðskyni, hægari hugsun, gloppóttu minni, kvíða og þunglyndi, auk skerðingar á andlegu og líkamlegu þoli og úthaldi.

Dómur hafði fallið í málinu í héraði árið 2016. Þeim dómi var áfrýjað til Hæstaréttar sem ómerkti hann og vísaði aftur í hérað sökum þess að dómur héraðsdóms var ekki fjölskipaður.

Tíu mánaða dómur féll í héraði í maí 2018 og var hann staðfestur í dag.

Við ákvörðun Landsréttar var litið til þess að maðurinn hefði ekki áður gerst sekur um ofbeldisbrot en árásin hefði verið stórfelld og tilefnislaus og haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola.

Með hliðsjón af því var refsing mannsins ákveðin fangelsi í 10 mánuði en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið vegna dráttar á meðferð málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×