Innlent

Víðtækar gjaldahækkanir ríkis og sveitarfélaga um áramótin

Kristján Már Unnarsson skrifar
Skattar ríkisins á bensín og bíla hækka um 2,5 prósent um áramót.
Skattar ríkisins á bensín og bíla hækka um 2,5 prósent um áramót. Mynd/Vísir.

Bensín og áfengi, strætó og sundstaðir, Ríkisútvarpið og leikskólagjöld. Þetta er meðal þess sem verður dýrara núna um áramót vegna gjaldahækkana ríkis og sveitarfélaga, en nokkur dæmi mátti sjá í fréttum Stöðvar 2. 

Þegar kemur að gjaldahækkunum hins opinbera, þá hefur mátt ganga út frá því sem vísu að bensín og brennivín hækka um áramót, og á því verður engin undantekning núna, samkvæmt lagasetningu Alþingis í tengslum við fjárlagagerðina. 

Bensín- og olíugjald til ríkisins hækkar um 2,5 prósent. Bifreiðagjald hækkar sömuleiðis um 2,5 prósent, en þetta er í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins og verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands, segir í greinargerð fjármálaráðherra.

Höfuðstöðvar Ríkisútvarpsins í Efstaleiti í Reykjavík.Vísir/Vilhelm

Nefskattur Ríkisútvarpsins hækkar um 2,3 prósent, úr 17.500 krónum í 17.900 krónur. 

Áfengis- og tóbaksgjald hækkar um 2,5 prósent. 

Sveitarfélögin láta ekki sitt eftir liggja í gjaldskrárhækkunum. Hjá stærsta sveitarfélaginu, Reykjavíkurborg, er línan 2,5 prósent, samkvæmt tillögu borgarstjóra

Á sundstöðum borgarinnar hækkar stakt gjald fyrir fullorðna úr 1.000 krónum í 1.030 krónur. Árskort fullorðinna hækkar úr 34.000 krónum í 34.850 krónur.

Frá Laugardalslaug. Dýrara verður að fara í sund eftir áramót.vísir/vilhelm

Aðgangseyrir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn hækkar fyrir fullorðna úr 900 krónum í 920 krónur og fyrir börn, 5-12 ára, úr 680 krónum í 700 krónur. 

Gjald fyrir að skoða Listasafn Reykjavíkur hækkar úr 1.800 krónum í 1.840 krónur og fyrir að heimsækja Borgarsögusafn Reykjavíkur hækkar gjald fullorðinna úr 1.700 krónum í 1.740 krónur. 

Leikskólagjöld hækka um áramót um 2,5 prósent. Námsgjald fyrir barn í átta tíma vistun fer yfir fimmtán þúsund krónur og svo bætist við fæðisgjald sem hækkar um sömu hlutfallstölu. 

Þá tilkynnti Strætó í dag um 2,3 prósenta hækkun fargjalda, sem þýðir að stakt gjald hækkar úr 470 krónum í 480 krónur.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×