Innlent

Lög­reglu­stjórinn van­hæfur í ill­vígum ná­granna­deilum í Flóa­hreppi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hreggviður Hermannsson sætir ákæru vegna nágrannadeilna í Flóahreppi. Héraðsdómur Suðurlands hefur nú úrskurðað lögreglustjórann á Suðurlandi vanhæfan til að fara með málið.
Hreggviður Hermannsson sætir ákæru vegna nágrannadeilna í Flóahreppi. Héraðsdómur Suðurlands hefur nú úrskurðað lögreglustjórann á Suðurlandi vanhæfan til að fara með málið.

Héraðsdómur Suðurlands hefur úrskurðað að embætti lögreglustjórans á Suðurlandi sé vanhæft til þess að fara með mál gegn Hreggviði Hermannssyni, bónda í Langholti 1 í Flóahreppi.

Embættið gaf út ákæru á hendur honum í mars síðastliðnum fyrir eignaspjöll og brot á vega- og umferðarlögum, en málið er angi af illvígum nágrannadeilum sem staðið hafa um árabil á milli Hreggviðs annars vegar og Ragnars Vals Björnssonar og Fríðar Sólveigar Hannesdóttur, bænda í Langholti 2, hins vegar.

Fjallað er um vanhæfni lögreglustjórans á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Þar kemur tveir af þremur starfsmönnum á ákærusviði embættisins tengist hjónunum að Langholti 2. Dóttir Fríðar sé þannig löglærður fulltrúi á sviðinu og kollegi hennar tók að sér verkefni sem tengdust deilunum fyrir Ragnar Val þegar hann vann sjálfstætt.

Í frétt Fréttablaðsins er vísað í greinargerð Einars Gauts Steingrímssonar, verjanda Hreggviðs, til Landsréttar þar sem hann segir Hreggvið hafa verið lagðan í einelti af lögreglunni svo árum skipti vegna fyrrnefndra tengsla. Áhugi embættisins á honum jaðri við þráhyggju.

Nágrannadeilurnar í Flóahreppi hafa oft ratað í fjölmiðla. Fyrr á þessu ári var Ragnar Valur dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fyrir að aka á Hreggvið í desember 2017. Þeim dómi var áfrýjað til Landsréttar.

Eins og áður segir hafa nágrannaerjurnar staðið um árabil og hafa ásakanir og kærur gengið fram og til baka í þeim efnum. Snýst deilan í grunninn um landspildu eftir makaskipti á tveimur jörðum árið 1987.

Frétt Stöðvar 2 um nágrannaerjurnar 2014 má sjá fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×