Innlent

Morðið í Hafnarfirði: Lögregla var á heimilinu fimm tímum fyrir andlátið

Nadine Guðrún Yaghi skrifar

Lögregla í Hafnarfirði hafði áður verið kölluð til vegna ástands mannsins, sem grunaður er um að hafa orðið móður sinni að bana aðfaranótt mánudags. Fimm klukkustundum síðar er hann talinn hafa raðist á móður sína. 

Yfirlögregluþjónn segir að ekki hafi verið lagaskilyrði til að fjarlægja manninn af heimilinu í fyrra útkallinu. Embætti héraðssaksóknara hefur verið upplýst um atburðarásina.

Maðurinn, sem er um þrítugt, var úrskurðaður í ellefu daga gæsluvarðhald síðasta þriðjudag. Hann er grunaður um að hafa orðið móður sinni að bana á heimili þeirra í Hafnarfirði um klukkan hálf tvö, aðfaranótt mánudagsins 6. apríl. Banameinið er talið vera hnífstunga.

Samkvæmt heimildum fréttastofu á maðurinn við geð- og fíknivandamál að stríða. Hann hafði búið hjá móður sinni og stjúpföður um tíma.

Þá herma heimildir fréttastofu að móðirin hafi glímt við veikindi og kvöldið áður en hún var myrt höfðu hún og sambýlismaður hennar kallað til lögreglu á heimilið þar sem móðirin gat ekki sofið vegna ástands sonarins.

Lögreglumenn mættu á staðinn og voru þar í nokkurn tíma, ræddu við manninn og fóru svo. Tæplega fimm klukkustundum síðar er maðurinn grunaður um að hafa ráðist á móður sína og stjúpföður með þeim afleiðingum að stjúpfaðirinn slasaðist og móðirin lést.

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinuVísir/baldur hrafnkell

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn, staðfestir að útkall hafi borist á umrætt heimili, kvöldið áður en konan lést.

 Hann segir að viðbrögð lögreglu við fyrsta útkallinu hafi þegar sætt skoðun embættisins og ekkert hafi komið fram um að vinnubrögð lögreglumanna hefðu átt að vera með öðrum hætti. Öll samskipti af heimilinu séu til á búkmyndavélum og hafi verið yfirfarin. 

Mat embættisins sé að ekki hafi verið lagaskilyrði fyrir hendi til að fjarlægja manninn af heimilinu í fyrra skiptið. Hins vegar hafi málavextir verið kynntir Héraðssaksóknara sem muni taka við rannsókn málsins á síðari stigum. Atburðarásin frá því fyrr um kvöldið sé hluti af rannsókn málsins. Þá segir Karl Steinar að stöðugt sé verið að rýna viðbrögð lögreglu í málum sem þessum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×