Handbolti

Guðjón Valur með sjö meistaratitla eftir þrítugt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson hefur raðað inn titlinum á síðustu níu tímabilum sínum og það í fjórum mismundandi löndum.
Guðjón Valur Sigurðsson hefur raðað inn titlinum á síðustu níu tímabilum sínum og það í fjórum mismundandi löndum. EPA/MARIUS BECKER

Guðjón Valur Sigurðsson varð í dag franskur meistari með liði sínu Paris Saint Germain þegar franska deildin ákvað að aflýsa tímabilinu og krýna meistara sína.

Guðjón Valur Sigurðsson heldur upp á 41 árs afmælið sitt í haust og var þarna að vinna sinn sjöunda meistaratitil á glæsilegum ferli.

Það sem er kannski merkilegt við það að allir þessir sjö meistaratitlar, í dönsku, þýsku, spænsku og frönsku deildinni hefur Guðjón Valur unnið á síðustu níu tímabilum sínum.

Guðjóni tókst ekki að verða landsmeistari á fyrstu sextán tímabilum sínum í meistaraflokki en hefur aftur á móti unnið sjö meistaratitla eftir að hann hélt upp á 32 ára afmælið sitt.

Guðjón Valur varð deildarmeistari með KA vorið 2001 en náði ekki að verða Íslandsmeistari þar sem KA tapaði oddaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn.

Fyrsta stóra titilinn vann Guðjón með þýska liðinu TUSEM Essen þegar vann EHF-bikarinn vorið 2005.

Guðjón Valur varð fyrst landsmeistari með danska liðinu AG frá Kaupmannahöfn vorið 2012 en hafði fyrr um tímabilið einnig orðið bikarmeistari með liðinu.

Guðjón Valur hefur síðan orðið þrisvar þýskur meistari (með bæði Kiel og Rhein-Neckar Löwen), hann varð spænskur meistari í tvígang með Barcelona og varð svo franskur meistari í dag með Paris Saint-Germain.

Guðjón Valur hefur einnig orðið bikarmeistari í Danmörku, í Þýskalandi og á Spáni. Hann náði því ekki með PSG því bikarkeppninni var aflýst vegna COVID-19.

Landsmeistaratitlar Guðjóns Vals Sigurðssonar:

  • 2012 - Danmörk - með AG
  • 2013 - Þýskaland - með Kiel
  • 2014 - Þýskaland - með Kiel
  • 2015 - Spánn - með Barcelona
  • 2016 - Spánn - með Barcelona
  • 2017 - Þýskaland - með Rhein-Neckar Löwen
  • 2020 - Frakkland - með Paris Saint Germain



Fleiri fréttir

Sjá meira


×