Erlent

Fyrr­verandi lög­manni Trump sleppt úr fangelsi vegna Co­vid-19

Sylvía Hall skrifar
Michael Cohen fyrir utan heimili sitt í dag.
Michael Cohen fyrir utan heimili sitt í dag. Vísir/Getty

Michael Cohen, fyrrverandi lögmaður Trump sem dæmdur var í þriggja ára fangelsi í desember 2018, hefur verið sleppt úr fangelsi og færður í stofufangelsi vegna kórónuveirufaraldursins. Er þetta gert til þess að sporna við frekari útbreiðslu veirunnar innan veggja fangelsisins og tryggja öryggi fanga.

Cohen játaði að hafa gerst sekur um brot á kosningalögum, skattsvik og að hafa logið að rannsóknarnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Sagði hann Trump hafa fengið sig til að „feta myrka braut í stað bjartrar“ og það hafi verið veikleiki að sýna Trump gagnrýnislausa hollustu.

Cohen afplánaði í fangelsi í New York sem hefur orðið illa úti í faraldrinum. Þónokkur staðfest tilfelli höfðu komið upp í fangelsinu en á landsvísu hafa 2.265 fangar greinst með veiruna og 188 starfsmenn. Þá hafa 58 fangar látist.

Upphaflega átti að Cohen að losna úr fangelsinu í apríl en því var frestað þar til nú. Í yfirlýsingu frá Cohen á Twitter segist hann vera glaður að vera kominn aftur heim til fjölskyldu sinnar.

Fyrr í mánuðinum var Paul Manafort, fyrrverandi framkvæmdastjóri forsetaframboðs Trump, færður í stofufangelsi vegna kórónuveirufaraldursins. Hann hafði afplánað rúmlega ár af sjö ára fangelsisdómi sínum fyrir meðal annars banka- og skattsvik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×