Enski boltinn

Benitez að snúa aftur á St.James´ Park?

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Rafa Benítez er vinsæll í Newcastle.
Rafa Benítez er vinsæll í Newcastle. vísir/getty

Spænski knattspyrnustjórinn Rafa Benitez gæti snúið aftur til Norður-Englands og tekið við stjórnartaumunum hjá enska úrvalsdeildarliðinu Newcastle fari svo að yfirtaka arabíska krónprinsins Mohammed Bin Salman gangi í gegn.

The Telegraph greinir frá þessu í kvöld.

Benitez er þjálfari Dalian Yifang í Kína en hann stýrði Newcastle frá 2016 til 2019 og er í miklum metum hjá stuðningsmönnum félagsins.

Þessi sextugi Spánverji yfirgaf Newcastle eftir ósætti við Mike Ashley, núverandi eiganda félagsins, en Benitez er sagður hafa áhuga á að snúa aftur til Newcastle með nýjum eigendum.

Vonir standa til að yfirtaka Bin Salman gangi í gegn í komandi viku og ljóst að ýmislegt mun breytast hjá félaginu í kjölfarið en Steve Bruce er núverandi þjálfari liðsins.

Heimildir Telegraph herma að Benitez sé þegar byrjaður að undirbúa leikmannakaup sumarsins og eru Englendingarnir John Stones og Ross Barkley meðal manna á óskalistanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×