Áratug eftir að eldgosinu lauk í Eyjafjallajökli fylgjast jarðvísindamenn enn grannt með hreyfingum í eldfjallinu. Eftir hægt kvikuinnstreymi í nokkur ár eftir gos virðist nú sem Eyjafjallajökull sé sofnaður Þyrnirósarsvefni og gæti sofið í heila öld. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Þegar flogið er yfir gígana á Fimmvörðuhálsi, þá Magna og Móða, má enn sjá gufumekki stíga upp. Þarna virðist ennþá vera einhver hiti undir, tíu árum eftir að þeir mynduðust í hraungosi, undanfara öskugossins í toppgígnum, sem gerði Eyjafjallajökul heimsfrægan, en tíu ár voru liðin um síðustu helgi frá lokum eldsumbrotanna.

Halldór Geirsson, jarðeðlisfræðingur við Háskóla Íslands, er í hópi þeirra vísindamanna sem vakta eldstöðina og hafa til þess meðal annars gps-mælistöðvar og jarðskjálftamæla í grennd við fjallið. Hann segir að fyrsta árið eftir goslokin í maí 2010 hafi lítið gerst í Eyjafjallajökli en svo fór athyglisverður atburður í gang í fjallinu sem benti til nýs kvikuinnstreymis.
„Upp úr 2011 þá fór það í raun og veru að þenjast út aftur, tiltölulega hægt, en þetta var stöðug þensla sem var í gangi alveg til 2015, svona frekar sunnan við toppinn á eldfjallinu og þar kannski á fimm kílómetra dýpi,“ segir Halldór.
Þenslan hætti svo skyndilega árið 2015, fjallið fór að síga og það sig hefur síðan haldið áfram.
„Þegar það sígur svona í eldstöðvum þá eru minni líkur á því að hún taki sig upp og gjósi, svona almennt séð.“

Fjallið virðist þannig vera að leggjast í dvala. En þýðir þetta að við erum kannski að sjá 100-200 ára goshlé?
„Það getur vel verið að við séum að sjá hlé upp á nokkurhundruð ár, sko. Það er ekkert ósennilegt.“
Halldór varar þó við því að draga of miklar ályktanir af gossögu og goshléum fyrri alda.
„Því að þessar eldstöðvar þær eiga yfirleitt margþætta ævi og geta gosið á margþættan hátt. Þannig að það verður bara að fylgjast með þessu áfram,“ segir Halldór Geirsson, dósent við Háskóla Íslands.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: