Innlent

Skimanir í Keflavík vænlegur kostur en niðurstöður erlendra mótefnamælinga óhentugar

Andri Eysteinsson skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Þrír möguleikar fyrir opnun Íslands að nýju eftir kórónuveirufaraldurinn eru til staðar í huga sóttvarnalæknis. Einn möguleikinn væri mjög slæmt úrræði, annar mjög langsóttur og hægt væri að mæla með þeim þriðja sem snýr að opnun landsins á sama tíma og unnið er að því að halda veirunni í burtu með ýmsum aðgerðum.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði einn möguleikann vera þann að opna landamærin alveg og hleypa hverjum sem er inn til landsins. Það væri mjög slæmt úrræði sem myndi auka líkurnar á því að upp blossaði stór faraldur hér á landi.

Sjá einnig: Útbreiddur faraldur ólíklegur en líkur á einstaka smitum

Þá sagðist Þórólfur efast um að hægt yrði að loka landinu alfarið, það hafi ekki verið lokað undanfarna mánuði þó flugsamgöngur hafi legið niðri það væri vegna skorts á ferðamönnum. „Við þurfum að loka 99% af allri umferð einstaklinga til landsins til þess að í besta falli koma í veg fyrir að veiran komi hingað inn nokkrum mánuðum síðar. Þetta hafa bæði rannsóknir, kenningar og líkanasmíði sýnt,“ sagði Þórólfur og bætti við að slíkar aðgerðir væru mjög langsóttar og myndu skapa fleiri vandamál en þær leystu.

Vænlegasta leiðin væri sú að reyna að stýra opnuninni þannig að hægt yrði að koma hjólum atvinnulífsins í gang á sama tíma og veirunni væri haldið í burtu. Þórólfur segir að það geti verið framkvæmanlegt með réttum aðgerðum og nefnir þar sóttkví, alþjóðlega samvinnu sem þó sé ekki væntanleg í nánustu framtíð, tvíhliða samninga milli landa og nefndi þar mögulega samninga við Norðmenn sem standa sig vel í baráttunni og bætti við að ekki ætti að gera samning við Svía og uppskar hlátrasköll úr salnum. Þórólfur sagði að upplýsingar frá öðrum löndum væru ekki nægilega áreiðanlegar sökum skorts á sýnatökum.

„Er hægt að hafa það þannig að erlendir einstaklingar sem hafa fengið staðfesta sýkingu, að þeir séu lausir?,“ velti Þórólfur frá sér og fjallaði um grundvallarreglu smitsjúkdómafræði um að sýktir einstaklingar geti ekki sýkst að nýju. „Ég myndi líta svo á að einstaklingar sem hafa fengið smit, eins og hann Agnar [Helgason, manneðlisfræðingur hjá ÍE sem smitaðist af veirunni og hélt erindi á fundinum] gæti ferðast hvert sem hann vildi og yrði óhræddur um að smitast, svo fremi að Kári leyfi honum það,“ sagði Þórólfur.

Þórólfur sagði þá að það kæmi til greina að ef ferðamenn gætu sýnt fram á það að hafa gengist undir próf í heimalandinu fyrir komuna til landsins ættu þau að geta sloppið við sýnatöku hér á landi. Mótefnamælingar séu þó ekki hentugar fyrir slíkt.

„Eins og staðan er í dag er mjög erfitt að fá eitthvað blað frá útlöndum þar sem segir að „John Johnson er með mótefni gegn veirunni,“ sagði Þórólfur og sagði alþjóðastofnanir mæla gegn því fyrirkomulagi.

Um landamærastöðvar sagði Þórólfur það vera vænlegan kost. Huga þyrfti þó að ýmsu en heilbrigðiskerfið væri með reynslu af því. Spurning væri um þann fjölda sýna sem hægt yrði að rannsaka en afköst veirufræðideildarinnar væru ekki nógu mikil til að geta sinnt þeim sýnatökum sem útlit yrði fyrir á Keflavíkurflugvelli.

Þá þyrfti að vera með aðstöðu fyrir smitaða í Keflavík. „Við getum ekki verið að greina fólk með veiruna í Keflavík og sent hann úr landi, það er bannað samkvæmt alþjóðalögum. Við þyrftum að bjóða upp á einangrun og sóttkví fyrir þá sem hafa verið í tæri við þennan einstakling, sagði Þórólfur á fræðslufundinum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×