Enski boltinn

Adidas lætur Özil róa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mesut Özil er búinn að missa samninga við tvo sína stærstu styrktaraðila.
Mesut Özil er búinn að missa samninga við tvo sína stærstu styrktaraðila. getty/Stuart MacFarlane

Þýski íþróttavöruframleiðandinn Adidas ætlar ekki að framlengja samning sinn við Mesut Özil, leikmann Arsenal.

Adidas er annað stórfyrirtækið sem lætur Özil róa á síðustu tveimur árum en samningur hans við bílaframleiðandann Mercedes var ekki framlengdur 2018.

Samkvæmt Bild eru tvær ástæður fyrir því að Adidas framlengir ekki samning Özils. Annars vegar vegna ímyndar hans og hins vegar er um sparnaðaraðgerð að ræða.

Özil hætti í þýska landsliðinu eftir heimsmeistaramótið 2018 og sagði að hann hefði verið gerður að blóraböggli fyrir slæmu gengi liðsins. Í aðdraganda HM hitti hann Recep Erdogan, forseta Tyrklands, sem mæltist misjafnlega fyrir. Erdogan var svo svaramaður í brúðkaupi Özils í fyrra.

Í desember gagnrýndi Özil svo meðferð Kínverja á úígúrum í Xinjiang. Í kjölfarið var hætt við að sýna leiki Arsenal í Kína og Özil var tekinn út úr kínversku útgáfunni af tölvuleiknum Pro Evolution Soccer.

Nú síðast var Özil gagnrýndur fyrir að vilja ekki taka á sig launalækkun hjá Arsenal vegna kórónuveirufaraldursins. Þjóðverjinn ku fá 350 þúsund pund í vikulaun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×