Enski boltinn

Liverpool goðsögn óttast að Klopp fari frá Liverpool og taki við Bayern

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk og Jürgen Klopp hafa væntanlega ástæðu til að fagna á næstunni.
Virgil van Dijk og Jürgen Klopp hafa væntanlega ástæðu til að fagna á næstunni. Getty/Andrew Powell

Jürgen Klopp er sex stigum frá því að gera Liverpool að enskum meisturum í fyrsta sinn í þrjátíu ár og verða um leið fyrsti knattspyrnustjóri Liverpool til að vinna ensku úrvalsdeildina.

Jürgen Klopp tók við liðinu árið 2015 og hefur byggt upp frábært lið á Anfield, lið sem er ekki aðeins að vinna ensku úrvalsdeildina í ár, heldur rústa henni.

Vangaveltur Liverpool goðsagnarinnar Steve McManaman eru því kannski ekki skemmtilegur lestur fyrir stuðningsmenn Liverpool liðsins sem vilja nú fagna því að enska úrvalsdeildina sé aftur að fara af stað og að þeir geti loksins farið að fagna enska meistaratitlinum.

Steve McManaman var spurður út í Jürgen Klopp og framtíð hans hjá Liverpool.

„Ég held að hann elski Liverpool og ensku úrvalsdeildina. En ég sé hann líka fyrir mér fara aftur til Þýskalands og taka við liði Bayern München,“ sagði Steve McManaman við Daily Star.

„Hvernig félagið er rekið og hvernig er komið fram við þýsku stjórana þarna. Ég held að við getum ekki útilokað það. Fyrir nokkrum árum leit eins og Bayern væri á á síðasta snúningi en núna eru þeir með marga spennandi unga og hungraða leikmenn í bland við þá eldri,“ sagði McManaman.

Real Madrid hefur verið orðað við Jürgen Klopp eins og marga af hans stjörnuleikmönnum. Steve McManaman efast hins vegar um að Klopp hefði áhuga á því að fara til Spánar.

„Ég er ekki viss um að Klopp hafi ástríðuna fyrir því að taka við Real Madrid eða Barcelona og ég sé ekki af hverju hann ætti að fara til Spánar,“ sagði Steve McManaman.

Steve McManaman er alinn upp hjá Liverpool og lék með liðinu frá 1990 til 1999 en hann fór þaðan til Real Madrid og endaði svo ferilinn hjá Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×