Fréttir

Ráðleggja Íslendingum í Póllandi að aka til Þýskalands

Andri Eysteinsson skrifar
Landamæri Póllands og Þýskalands
Landamæri Póllands og Þýskalands Getty/Stefan Sauer

Almenningssamgöngur Póllands leggjast brátt af að mestu leyti en pólsk stjórnvöld hafa lokað alþjóðlegum flugsamgöngum og lestarsamgöngur munu liggja niðri frá miðnætti í kvöld, aðfaranótt 15.mars. Þetta kemur fram í áríðandi tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu.

Ráðuneytið ráðleggur þá þeim Íslendingum sem eru á ferð um Pólland og vilja komast frá landinu, til þess að fara landleiðina akandi yfir landamærin til Þýskalands, eða annarra landa þar sem hægt er að komast í alþjóðlegt flug.

Ríkisstjórnin kom saman til aukafundar klukkan eitt í dag til að ræða þá stöðu sem komin er upp vegna aðgerða stjórnvalda í öðrum löndum.

„Vegna þess að lönd eru að loka landamærum sínum erum við náttúrulega að benda Íslendingum sem eru á ferðalagi að þeir þurfa að huga að ferðatilhögun og tryggja að þeir geti komið heim. Þess vegna er fólki ráðlagt að skoða það hvort það geti flýtt för og þeir sem eru á leið í ferðalag, að þeir skoði þau plön,“sagði Katrín að loknum ríkisstjórnarfundinum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×