Körfubolti

Kristjana Eir: Buðu mér tækifæri sem ég gat ekki hafnað

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kristjana Eir er byrjuð að starfa hjá ÍR.
Kristjana Eir er byrjuð að starfa hjá ÍR. vísir/s2s

Kristjana Eir Jónsdóttir, verður ein af tveimur kvenkynsaðstoðarþjálfurum sem munu starfa í Dominos-deild karla á næstu leiktíð, en Kristjana var ráðin til ÍR í gær.

Kristjana verður aðstoðarþjálfari ÍR og hjá Stjörnunni er Danielle Rodriguez aðstoðarþjálfari. En hvernig kom það til að hún fór að þjálfa hjá ÍR?

„ÍR hafði samband við mig og buðu mér tækifæri sem ég gat ekki hafnað,“ sagði Kristjana Eir í samtali við Júlíönu Þóru Hálfdánardóttur í Sportpakka kvöldsins.

„Þetta er mjög mikill heiður og ég þakka ÍR traustið að gefa mér þetta tækifæri. Ég ætla að gera allt sem ég get til þess að sanna að ég eigi þetta skilið.“

Hún segir að hún búist ekki við því að strákarnir muni ekki hlusta á hana.

„Ég held að þegar ég sýni þeim að ég kann körfubolta og veit hvað ég er að tala um þá verður það ekkert vandamál.“

Hjá ÍR mun Kristjana vinna með Borce Ilievski og hún er spennt fyrir því.

„Ég held að ég geti lært helling af honum. Ég held að þetta verði lærdómstímabil fyrir mig. Hann er að mínu mati einn besti þjálfari landsins og ég er mjög spennt fyrir þessu samstarfi.“

Klippa: Sportpakkinn - Kristjana Eir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×