Enski boltinn

Jóhann Berg ekki með Burnley gegn Englandsmeisturunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jóhann Berg  í grasinu í leik gegn Frökkum á Laugardalsvelli þann 11. október 2019.
Jóhann Berg  í grasinu í leik gegn Frökkum á Laugardalsvelli þann 11. október 2019. Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Á mánudaginn eftir helgi mætast Burnley og Manchester City. Er það fyrsti leikur fyrrnefnda liðsins síðan öllu var skellt í lás sökum kórónufaraldursins í Englandi. Sean Dyche, þjálfari Burnley, hefur nú þegar gefið út að íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson verði ekki í leikmannahópi liðsins en hann er ekki búinn að jafna sig af meiðslum.

Jóhann Berg var vongóður um að ná þeim leikjum sem eftir væru er hann ræddi við vefsíðu Burnley í apríl. Mögulega verður hann kominn aftur í leikmannahóp liðsins þegar Burnley fær Watford í heimsókn á fimmtudaginn eftir viku.

Jóhann er ekki eini leikmaður Burnley sem verður fjarri góðu gamni gegn City en þeir Chris Wood og Ashley Barnes verða hvorugur með. 

Burnley siglir lygnan sjó í ensku úrvalsdeildinni en þegar níu umferðir eru eftir er liðið með 39 stig. Er liðið 12 stigum fyrir ofan fallsæti og sex stigum frá Manchester United sem situr í 5. sætinu en það er síðasta sætið sem gefur þátttökurétt í Evrópukeppni á næstu leiktíð.

Þá er það ekki bara Burnley sem þarf á kröftum Jóhanns að halda en íslenska landsliðið mætir Rúmeníu í október næstkomandi en leikurinn er liður í umspili Evrópumótsins sem fram fer næsta sumar. Það er deginum ljósara að möguleikar íslenska liðsins aukast til muna ef Jóhann er heill heilsu.


Tengdar fréttir

Jóhann Berg mælir með Beint í mark | Myndband

Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður í knattspyrnu og enska félagsins Burnley, ku vera með lausn á því ef fólk er uppiskroppa með hugmyndir af því sem hægt er að gera heima hjá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×