Innlent

Stærðarinnar heræfing hefst á mánudag

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Hér má sjá HMS Kent, bresku freygátuna, við höfn í dag.
Hér má sjá HMS Kent, bresku freygátuna, við höfn í dag. Vísir/Sigurjón

Tvö herskip komu til landsins í dag til þess að taka þátt í flotaæfingu Atlantshafsbandalagsins (NATO), sem hefst á mánudag.

Dynamic Mongoose kallast æfingin, eða vaskur mongús á sæmilegri íslensku. Þessar æfingar hafa alla jafna farið fram undan ströndum Noregs frá árinu 2012, fyrir utan æfinguna 2017 sem fór fram hér á landi. Framvegis stendur til að halda æfingarnar til skiptis við strendur Íslands og Noregs.

Auk Íslands taka sex ríki NATO þátt í æfingunni; Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kanada, Noregur og Þýskaland. Þau leggja til fimm kafbáta, fimm freigátur og fimm kafbátaleitarflugvélar.

Fyrsti báturinn sigldi inn í Sundahöfn í morgun. Þetta er þýskur kafbátur, U-36, og er hann af nýjustu gerð kafbáta.

Svo kom HMS Kent, bresk freygáta. Hundrað þrjátíu og þrír metrar að lengd, útbúin eldflaugum, byssum og alls konar öðrum vopnum.

Framlag Íslendinga til æfingarinnar er aðstaða á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, þá tekur Landhelgisgæslan sömuleiðis tekur þátt í æfingunni. Markmiðið er að þjálfa áhafnir í að leita að, elta uppi og granda kafbátum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×