Enski boltinn

Pulisic fremstur meðal jafningja

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pulisic kemur Chelsea yfir gegn Manchester City.
Pulisic kemur Chelsea yfir gegn Manchester City. EPA-EFE/Paul Childs

Bandaríkjamaðurinn Christian Pulisic hefur ekki heillað alla upp úr skónum í vetur en hann er samt sem áður markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar ef miðað er við leikmenn 21 árs eða yngri. Pulisic er fæddur árið 1998 og verður 22 ára þann 18. september næstkomandi.

Skoraði hann sitt sjöunda mark á tímabilinu í gær þegar hann kom Chelsea yfir gegn Manchester City. Hefur enginn skorað fleiri mörk. Fór það svo að Chelsea vann leikinn 2-1 og tryggði þar með Liverpool Englandsmeistaratitilinn – þann fyrsta í 30 ár eins og alþjóð eflaust veit.

Var þetta annar leikurinn í röð þar sem mark Pulisic tryggir Chelsea þrjú stig en hann skoraði einnig í 2-1 sigri á Aston Villa þann 21. júní.

Næstur á lista markahæstu leikmanna 21 árs og yngri er svo annar Chelsea maður, Mason Mount.

Markaskorun Pulisic er í raun enn merkilegri ef horft er til þess að hann hefur aðeins byrjað 13 leiki fyrir Chelsea á tímabilinu og aðeins komið fimm sinnum af bekknum. Þá hefur Bandaríkjamaðurinn lagt upp tvö mörk.

Reikna má með Pulisic enn sterkari á næstu leiktíð en leikmaðurinn var keyptur frá þýska félaginu Borussia Dortmund í janúar 2019 og gekk í raðir Chelsea það sumar. Þetta er því fyrsta tímabil hans í ensku úrvalsdeildinni.

Ljóst er að Frank Lampard mun hafa nóg af valmöguleikum fram á við á næstu leiktíð en Chelsea hefur nú þegar staðfest kaup á vængmanninum Hakim Ziych frá Ajax og framherjanum Timo Werner frá RB Leipzig.

Með sigrinum í gær náði Chelsea fimm stiga forystu á Manchester United og Wolverhampton Wanderers en Lundúnaliðið er sem stendur í 4. sæti deildarinnar sem er síðasta sætið sem gefur þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×