Fótbolti

Nani afgreiddi KR-inga á Flórída með tveimur mörkum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nani skoraði 12 mörk í 30 leikjum í MLS-deildinni á síðasta tímabili.
Nani skoraði 12 mörk í 30 leikjum í MLS-deildinni á síðasta tímabili. Getty/L. Black

KR-ingar töpuðu 3-1 í æfingaleik sínum á móti bandaríska MLS-liðinu Orlando City í nótt en Íslandsmeistararnir eru í æfingaferð í Bandaríkjunum.

Portúgalinn og frægasti knattspyrnumaður Orlando liðsins, Nani, var sjóðheitur í leiknum og skoraði tvö mörk. Sautján ára KR-ingur, Valdimar Daði Sævarsson, skoraði mark KR-liðsins í leiknum.

Nani er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Manchester United en hann lék með enska stórliðinu á árunum 2007 til 2015 og varð meðal annars fjórum sinnum enskur meistari. Nani er núna orðinn 33 ára gamall og er að fara að hefja sitt annað tímabil með bandaríska félaginu.

Það tók Nani aðeins tvær mínútur að skora á móti KR og það leið ekki á löngu þar til að Benji Michel hafði bætt við marki.

Kristján Flóki Finnbogason minnkaði muninn fyrir KR-liðið um miðjan fyrri hálfleik en Nani var búinn að skora sitt annað mark fyrir hálfleik.  Staðan var 3-1 í hálfleik og liðin bættu ekki við mörkum í síðari hálfleiknum.

Það er mun styttra í tímabilið hjá Orlando City en fyrsti leikur liðsins er eftir tíu daga. Fyrsti leikur KR-inga í Pepsi Max deildinni er ekki fyrr en tæpum tveimur mánuðum síðar.

Hér fyrir neðan má sjá sviðmyndir úr leiknum í nótt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×