Handbolti

Óléttupróf tekin án samþykkis

Sindri Sverrisson skrifar
Danska landsliðskonan Lotte Grigel er í liði Nantes sem er í 3. sæti frönsku deildarinnar.
Danska landsliðskonan Lotte Grigel er í liði Nantes sem er í 3. sæti frönsku deildarinnar. vísir/epa

Samtök handknattleiksmanna í Frakklandi hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau lýsa yfir megnri óánægju með að félag í efstu deild kvenna hafi látið lækni kanna hvort einhver leikmanna liðsins væri óléttur.

Prófin voru tekin við almenna læknisskoðun fyrir tímabilið. Í yfirlýsingunni segir að það sé kolólöglegt að taka óléttupróf án samþykkis leikmanna og að þetta sé árás á þeirra einkalíf. Samtökin segjast hafa sent félaginu bréf og upplýst yfirvöld um stöðu mála, og hyggjast fylgja málinu eftir enda sé algjörlega óviðunandi að svona lagað gerist.

L'Equipe segir að umrétt félag sé Nantes og hefur eftir forseta félagsins, Arnaud Ponroy, að „þessi próf hafi að sjálfsögðu verið gerð með samþykki leikmanna“. Það sé bara heimska og óheiðarleiki af hálfu leikmannasamtakanna að skipta sér af málinu því læknir verði að vita hvort leikmenn séu barnshafandi upp á æfingaálag að gera og hugsanlega lyfjagjöf. Hugsanlega hafi þó eitthvað farið úrskeiðis í að útskýra málið almennilega fyrir erlendum leikmönnum félagsins. Þá bætir forsetinn við að krafan um að óléttuprófin væru tekin sé alls ekki frá honum komin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×