Áhrif á skólahald og sorphirðu í Reykjavík verða enn áþreifanlegri á næstu dögum, nú þegar ótímabundnar verkfallsaðgerðir Eflingar eru að sigla inn í aðra viku. Framkvæmdastjóri Eflingar segir að ríkissáttasemjari taki á deilunni af festu, jafnvel þótt engin samskipti hafi verið milli samninganefnda síðustu daga og ekki hafi verið boðað til fundar.
Harpa Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Reykjavíkur, baðst enda undan viðtali í dag. Lítil hreyfing sé á hlutunum og samtalið við Eflingu ekkert frá síðasta fundi á miðvikudag. Það er þó ekki þar með sagt að engin vinna sé í gangi.
„Við höfum nýtt tímann mjög vel síðustu daga, eins og við gerum jafnan þó svo að það sé ekki verið að funda,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. Til að mynda sé verið að skoða „ýmsar útfærslur og tölur" eins og Viðar orðar það, auk þess sem skipulagning baráttunnar haldi áfram
Meðan þessi vinna stendur yfir mega íbúar borgarinnar búast við áframhaldandi raski á daglegu lífi. Í fjölda leik- og grunnskóla borgarinnar einkenndist síðasta vika af lokunum og svokölluðu veltukerfi, þar sem hluti barna þurfti að sitja heima yfir daginn, og gera stjórnendur Hamraskóla og Vogaskóla ráð fyrir því að taka einnig upp veltukerfi frá og með þriðjudeginum næstkomandi.
Óttist þið ekkert að almenningsálitið fari að snúast gegn ykkur?
„Auðvitað byggist upp spenna og óþol hjá fólki út af þessu ástandi, það er alveg klárt mál og við gerum okkur fyllilega grein fyrir því," segir Viðar. „Hins vegar höfum við fundið það mjög eindregið að það er jarðvegur fyrir því að gera þessa launaleiðréttingu sem við höfum krafist og borgarstjórnarmeirihlutinn hefur sjálfur talað fyrir.“
Sáttasemjari haldi vel á deilunni
Samninganefndir geta farið fram á það að boðað verði til fundar í kjaradeilum, telji þær að eitthvað nýtt hafi komið fram sem líklegt er talið að geti leitt deiluna til lykta. Sú staða er þó ekki upp á teningnum nú og segir Viðar að Efling treysti ríkissáttasemjara til að meta hvenær rétt sé að boða til fundar.
„Við höfum við er hlynnt því að láta viðræðurnar fara fram undir forræði ríkissáttasemjara, sem að okkar mati er að sinna þessari deilu vel og tekur á henni af mikilli alvöru. Af þeirri ástæðu höfum við talið það ekki viðeigandi að fara í beinar viðræður við samninganefnd Reykjavíkurborgar án aðkomu ríkissáttasemjara,“ segir Viðar.