Erlent

Viðbrögð Merkel sögðu sitt um það hvort Trump heillaði hana

Samúel Karl Ólason skrifar
Angela Merkel brosti við þegar hún var spurð út í það hvort Trump hefði heillað hana.
Angela Merkel brosti við þegar hún var spurð út í það hvort Trump hefði heillað hana. EPA/Henning Schacht

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, virtist hissa þegar hún var spurð að því hvort Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefði heillað hana. Það kom fram í ræðu Richard Grenell, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Þýskalandi og fyrrverandi starfandi yfirmanni leyniþjónusta Bandaríkjanna, á landsfundi Repúblikanaflokksins í vikunni.

Grenell hélt því fram á miðvikudaginn að hann hefði fylgst með Trump heilla Merkel á fundi þeirra og á sama tíma krafist þess að Þýskaland standi við skuldbindingar sínar gagnvart Atlantshafsbandalaginu.

Hann sagðist hafa verið í aðstöðu til að sjá með berum augum hvernig „Bandaríkin fyrst“ utanríkisstefna Trump hefði hagnast Bandaríkjamönnum og hvernig Trump semdi við aðra þjóðarleiðtoga.

Merkel sjálf var spurð út í þessi ummæli á blaðamannafundi í morgun. Í fyrstu virtist hún mjög hissa og bað blaðamanninn um að endurtaka það sem Grenell hefði sagt.

Þá vottaði fyrir glotti á Merkel og blaðamenn í salnum hlógu. Kanslarinn sagði þó að hún vildi ekki tjá sig um einkasamskipti hennar og Trump. Fólki þykir viðbrögð hennar og líkamstjáning þó vera nægileg svör.

Vert er að rifja upp að samband Trump og Merkel hefur aldrei virst gott. Meðal annars er Trump sagður hafa kallað hana heimska í síma og hefur hann reglulega gagnrýnt hana harðlega opinberlega.

Árið 2017, eftir fund þeirra tveggja í Hvíta húsinu virtist Trump einnig hunsa Merkel allfarið við myndatöku eftir fundinn. Þá virtist hún einnig skemmta sér yfir hegðun Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×