Kamilla Ívarsdóttir hefur þurft að þola gróft ofbeldi af hendi fyrrverandi kærasta síns. Hann var í mars á þessu dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir fólskulega líkamsárás á hana í október síðastliðinn. Kamilla var þá 17 ára. Hún hefur nú kært hann fyrir aðra árás.
Kamilla var í ítarlegu viðtali í Kastljósi í kvöld.
Hann afplánaði fimm mánuði og var látinn laus fljótlega eftir að dómurinn féll, þar sem hann hafði setið nær óslitið í gæsluvarðhaldi síðan í október. Mánuði fyrir árásina í október hafði móðir Kamillu kært manninn fyrir aðra árás, sem átti sér stað á Ljósanótt í Reykjanesbæ árið 2018.
Kamilla hefur nú kært manninn fyrir grófa líkamsárás í maí síðastliðinn, eftir að hann losnaði úr fangelsi fyrir árásina í október. Hún segir hann meðal annars hafa tekið hana upp yfir axlir sínar og kastað henni í gólfið með þeim afleiðingum að hún missti meðvitund. Því næst hafi hann tekið hana kyrkingartaki.
„Svo hélt hann hníf upp við hálsinn á mér og lýsti því fyrir mér hvað hann myndi gera ef ég myndi fara frá honum,“ segir Kamilla. Maðurinn hótaði að drepa Kamillu og fjölskyldu hennar.
Maðurinn var úrskurðaður í nálgunarbann fram í desember vegna málsins, en Landsréttur féllst ekki á gæsluvarðhaldskröfu yfir honum og gengur hann því laus.
Man lítið eftir kvöldinu í október
Kamilla kveðst í viðtali við Kastljós lítið muna eftir októberkvöldinu sökum höfuðáverka sem hún hlaut.
„Eina sem ég man er bara að við vorum niðri í bæ að hafa gaman og ég man síðan bara ekki neitt.“
Það næsta sem hún muni eftir sé þegar hún vaknaði á spítala.
„Ég er þríbrotin í andlitinu, ég er með gervibein hér í dag,“ segir Kamilla og bendir á hægri kinnina á sér.
Þá segir hún að höfuðið á henni hafi verið „tíu sinnum stærra.“
„Eini staðurinn sem ég var ekki með áverka á var vinstri eða hægri rasskinn.“
Í viðtalinu lýsir Helga Sæunn Árnadóttir, móðir Kamillu, því að þegar hún hafi komið á spítalann og séð dóttur sína hafi hún ekki þekkt hana strax og talið að verið væri að fara mannavillt, svo illa var hún leikin eftir árásina.
„Sjáðu hvað ég hef gert“
Maðurinn var handtekinn 19. október og tjáði lögreglu í kjölfar handtöku að fram hefðu farið „dramatísk sambandsslit“ um nóttina. Þá hafði hann ítrekað uppi ummælin „Sjáðu hvað ég hef gert,“ að því er fram kom í greinargerð lögreglu í gæsluvarðhaldskröfu yfir manninum.
Í greinargerð lögreglunnar kom einnig fram að umrædda nótt hafi borist tilkynning til lögreglu í gegnum Neyðarlínuna um blóðuga manneskju við Geirsgötu skammt frá Kolaportinu. Þar hafi karlmaðurinn verið blóðugur í framan og skólaus, sitjandi yfir stúlku sem hafi verið í sjáanlega miklu uppnámi og mjög blóðug í framan.
Við nánari skoðun hafi komið í ljós að hægra augað á stúlkunni var svo mikið bólgið að hún gat ekki opnað það. Lögreglumenn ákváðu strax að skilja að unga manninn og stúlkuna, handtaka hann og færa á lögreglustöð en flytja stúlkuna í sjúkrabíl á spítala. Umrædd stúlka er Kamilla.
Eins og áður sagði var maðurinn dæmdur til 12 mánaða fangelsisvistar. Hann var sakfelldur fyrir líkamsárás á Kamillu, en einnig hótanir í garð barnsmóður sinnar í gegn um samfélagsmiðilinn Snapchat.
Draumakærastinn fyrst um sinn
Í viðtali við Kastljós í kvöld segir Kamilla að hún hafi kynnst manninum í gegn um sameiginlega vini þegar hún var 14 ára. Þegar þau hafi síðar byrjað saman hafi sambandið verið gott í fyrstu.
„Mjög gott, bara. Draumastrákurinn fyrstu mánuðina.“
Hann hafi þó tekið köst þegar hann neytti áfengis og í eitt skipti, þegar Kamilla reyndi að róa hann niður, hafi hann ýtt henni í jörðina. Þau hafi hætt saman í kjölfarið og hann eignast barn með annarri konu.
„En við hættum aldrei að vera í samskiptum og hann var alltaf að halda í mig svo ég myndi ekki hætta að hugsa um hann,“ segir Kamilla.
Þau hafi síðan verið saman á Ljósanótt í Reykjanesbæ árið 2018 að skemmta sér. Maðurinn hafi látið sig hverfa um kvöldið og Kamilla ekki náð í hann fyrr en morguninn eftir.
„Við erum eitthvað að tala saman og ég spyr hann hvar hann er búinn að vera og svoleiðis. Svo verður hann mjög pirraður, snýr sér við, var að fara að labba í burtu og snýr sér síðan aftur að mér og kýlir mig einu sinni í andlitið og ég fæ blóðnasir og sprungna vör.“
Vonsvikin út í réttarkerfið
Móðir Kamillu furðar sig í viðtalinu á dóminum sem maðurinn fékk fyrir árásina á Kamillu, sem sjálf segist hafa verið vonsvikin eftir að dómurinn féll.
„Ég var eiginlega bara hrædd, því ég vissi það að ef hann væri að fara að losna strax þá væri ég ekki orðin nógu sterk til þess að geta sagt nei. Ég var mjög vonsvikin út í réttarkerfið,“ segir Kamilla.
Kamilla segist hafa farið og hitt manninn eftir að hann losnaði úr fangelsi.
„Svona menn, þeir læra á þig, þínar tilfinningar og veiku hliðina þína og þeir nota það þegar þeir þurfa til dæmis á fyrirgefningu að halda. Þá komast þeir einhvern veginn inn í hausinn á þér og þú ert bara svona „Ókei já, það er rétt hjá honum. Þetta gerist ekki aftur.“ Og þess vegna fer maður alltaf aftur til þeirra, af því að maður heldur að þetta sé ekkert að fara að gerast aftur, þótt þetta sé búið að gerast milljón sinnum áður. Og hann lofaði og lofaði og lofaði endalaust. Svo breyttist bara ekki neitt.“
Eins og fjallað var um hér að ofan hefur Kamilla kært manninn fyrir aðra árás, eftir að hann losnaði úr fangelsi. Hann hafi meðal annars hótað að drepa hana og fjölskyldu hennar ef hún færi frá honum.