Íslenski boltinn

Jafnt í toppslagnum sem og í Grindavík

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Keflavík gerði jafntefli við Fram í toppslag Lengjudeildar karla í kvöld.
Keflavík gerði jafntefli við Fram í toppslag Lengjudeildar karla í kvöld. Vísir/Vilhelm

Tveir leikir fóru fram í Lengjudeild karla í knattspyrnu í dag. Lauk báðum leikjunum með 1-1 jafntefli.

Í Keflavík var toppslagur deildarinnar en Fram var í heimsókn. Eftir markalausan fyrri hálfleik var það Alex Freyr Elísson sem kom Fram yfir með marki úr vítaspyrnu eftir sléttan klukkutíma leik. 

Topplið Fram því komið með 1-0 forystu í veðurblíðunni á Suðurnesjum og stefndi í að þeir færu með stigin þrjú heim þangað til fjórar mínútur voru eftir af leiknum. Þá varð Hlynur Atli Magnússon fyrir því óláni að skora sjálfsmark. 

Undir lok leiks fékk Gunnar Gunnarsson, leikmaður Fram, rautt spjald og því luku gestirnir leik með 10 manns inn á vellinum. Lokatölur í Keflavík því 1-1.

Í Grindavík var Leiknir Reykjavík í heimsókn og kom Sævar Atli Magnússon gestunum yfir strax á 11. mínútu leiksins. Sex mínútum síðar jafnaði Guðmundur Magnússon metin og þar við sat. Líkt og í Keflavík var rautt spjald undir lok leiks en Alexander Veigar Þórarinsson, leikmaður Grindavíkur, fékk beint rautt spjald í uppbótartíma.

Lokatölur því einnig 1-1 og eitt stig á lið niðurstaðan en það gerir lítið fyrir bæði lið.

Fram er sem fyrr á toppi deildarinnar, nú með 33 stig. Keflavík kemur þar á eftir með 31 og á leik til góða. Leiknir R. er svo í 3. sæti með 30 stig. Grindavík er hins vegar í 6. sæti með 23 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×