Fótbolti

Annar leikmaður Juventus með kórónuveiruna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Juventus verður án þessa tveggja lykilmanna en þeir hafa báðir greinst með kórónuveiruna.
Juventus verður án þessa tveggja lykilmanna en þeir hafa báðir greinst með kórónuveiruna. Silvia Lore/Getty Images

Weston McKennie, miðjumaður Ítalíumeistara Juventus og bandaríska landsliðsins í knattspyrnu, hefur greinst með kórónuveiruna. Hann er annar leikmaður félagsins sem greinist á aðeins tveimur dögum en stórstjarnan Cristiano Ronaldo greindist í gær.

McKennie – líkt og aðrir sem greinast með kórónuveiruna – mun fara í einangrun þangað til læknar staðfesta að hann sé ekki lengur smitaður. Það er því hægt að útiloka að McKennie verði með Juventus gegn Dynamo Kyiv og Barcelona í Meistaradeild Evrópu þann 20. og 28. október.

Þetta er mikið áfall fyrir Andrea Pirlo, þjálfara Juventus, en McKennie virtist hans fyrsta val á miðju liðsins í upphafi tímabils. Sama má segja um Ronaldo sem á alltaf sæti í byrjunarliði meistaranna ef hann er heill heilsu.

Ronaldo ku vera kominn til Tórínó en hann greindist með Covid-19 á meðan hann var með portúgalska landsliðinu. Talið er að Ronaldo hafi mögulega brotið sóttvarnarlög er hann ferðaðist frá Portúgal til Ítalíu.

Juventus verður án McKennie og Ronaldo er það heimsækir Crotone heim á laugardaginn í fjórðu umferð ítölsku úrvalsdeildarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×