Innlent

Fjögur ungmenni á slysadeild eftir árekstur í Kópavogi

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglan hafði í ýmis horn að líta í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan hafði í ýmis horn að líta í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Bíl var ekið gegn rauðu ljósi yfir gatnamót og inn í hlið bifreiðar með fjórum ungmennum undir lögaldri innanborðs í Kópavogi á tólfta tímanum í gærkvöldi. Ungmennin voru flutt á bráðadeild en upplýsingar um meiðsli þeirra liggja ekki fyrir, að sögn lögreglu.

Slysið átti sér stað um klukkan hálf tólf í gærkvöldi, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Forráðamönnum ungmennanna var tilkynnt um slysið og barnavernd gert viðvart.

Draga þurfti báðar bifreiðar af vettvangi en ljósastaur skemmdist einnig við áreksturinn.

Í Hafnarfirði var maður handtekinn grunaður um framleiðslu og vörslu fíkniefna klukkan 19:20 í gærkvöldi. Hann var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Á fjórða tímanum í nótt handtók lögregla svo mann í Garðabæ sem var grunaður um líkamsárás, ofbeldi gegn opinberum starfsmanni, vörslu fíkniefna og fleira. Hann gisti sömuleiðis fangageymslu í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×