Handbolti

Bjarki Már, Ómar Ingi og Viggó allir marka­hæstir en enginn vann leik | Löwen á toppnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viggó í baráttunni gegn Rhein-Neckar Löwen í vetur.
Viggó í baráttunni gegn Rhein-Neckar Löwen í vetur. Marco Wolf/Getty Images

Alls voru þrír Íslendingar markahæstir hjá liðum sínum í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld. Enginn þeirra landaði þó sigri í kvöld.

Bjarki Már Elísson og félagar í Lemgo töpuðu á heimavelli fyrir Balingen-Weilstetten, lokatölur 26-32. Viggó Kristjánsson, Elvar Ásgeirsson og liðsfélagar þeirra í Stuttgart heimsóttu Erlangen. Þar máttu þeir þola níu marka tap, lokatölur 34-25. Að lokum töpuðu þeir Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson er Magdeburg lá gegn Ými Erni Gíslasyni og félögum í Rhein-Neckar Löwen, lokatölur 31-33.

Bjarki Már var allt í öllu í liði Lemgo í kvöld er Balingen-Weilstetten kom í heimsókn. Bjarki virtist hins vegar einn á móti rest en hann fékk litla hjálp frá samherjum sínum. Lemgo var sex mörkum undir í hálfleik, staðan þá 10-16. Tókst þeim ekki að brúa bilið í síðari hálfleik og munurinn enn sex mörk er flautað var til leiksloka, lokatölur 26-32.

Skoraði Oddur Gretarsson tvö mörk í liði Balingen í kvöld en þetta var þeirra fyrsti sigur á tímabilinu. Alls skoraði Bjarki tíu af 26 mörkum Lemgo í kvöld. Er liðið sem stendur í 7. sæti að loknum sjö leikjum.

Leikur Magdeburg og Rhein-Neckar Löwen var nokkuð spennandi en gestirnir voru þó alltaf sterkari aðilinn. Voru þeir þremur mörkum yfir í hálfleik, 15-18. Heimamenn náðu aðeins að klóra í bakkann en er leiknum lauk var munurinn þó enn tvö mörk, lokatölur 31-33 Löwen í vil.

Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk í leiknum fyrir Magdeburg og Gísli Þorgeir eitt. Ýmir Örn komst ekki á blað hjá Löwen en hann nældi sér þó í gult spjald. Alexander Petersson var ekki í leikmannahóp Löwen í kvöld.

Ýmir og Alexander eru sem fyrr á toppi deildarinnar. Á sama tíma er Magdeburg í 6. sæti og Stuttgart þar fyrir ofan.

Viggó var allt í öllu að venju í sóknarleik Stuttgart en líkt og hjá Bjarka þá gekk samherjum hans ekkert að þenja netmöskvana er liðið mætti Erlangen á útivelli. Það er í síðari hálfleik en staðan í hálfleik var 16-16.

Í þeim síðari gekk allt upp hjá Erlangen sem skoraði hvert markið á fætur öðru og fór það svo að Erlangen vann níu marka sigur, lokatölur 34-25. Viggó skoraði sex mörk í leiknum á meðan Elvar komst ekki á blað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×