Íslenska landsliðið skipað leikmönnum 21 árs eða yngri verður í neðsta styrkleikaflokki er dregið verður í riðla fyrir lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu. Dregið verður þann 10. desember.
Ísland tryggði sér sæti á EM með frábærum sigir á Írlandi ytra í lok leik undankeppninnar. Nokkrum dögum áður hafði liðið tapað naumlega gegn Ítalíu hér heima en það kom sem betur fer ekki að sök.
Vegna kórónufaraldursins verður mótinu - sem fram fer í Slóveníu og Ungverjalandi - skipt upp í tvo hluta. Riðlakeppnin hefst 24. mars og lýkur þann 31. sama mánaðar. Útsláttarkeppnin hefst svo 31. maí og lýkur 6. júní.
Ástæðan ku vera sú að knattspyrnusamband Evrópu vill ekki að mótið fari fram á sama tíma og EM A-landsliða fari fram.
Hér að neðan má sjá styrkleikaflokkana en líkt og vanalega verður eitt lið úr hverjum styrkleikaflokki í hverjum riðli.
Fyrsti styrkleikaflokkur
Spánn [Ríkjandi meistarar]
Þýskaland
Frakkland
England
Annar styrkleikaflokkur
Ítalía
Danmörk
Portúgal
Holland
Þriðji styrkleikaflokkur
Rúmenía
Króatía
Tékkland
Rússland
Fjórði styrkleikaflokkur
Sviss
Ísland
Slóvenía
Ungverjaland