Þetta kom fram í Víglínunni á Stöð 2 í dag, en Sigríður var þar til viðtals.
Sigríður sagði af sér ráðherraembætti í mars í fyrra daginn eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að skipan dómara í Landsrétti hefði brotið gegn ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu. Yfirdeild dómstólsins staðfesti þá niðurstöðu á þriðjudag.
Sigríður breytti lista hæfnisnefndar í tilfelli fjögurra dómara. Tillagan var samþykkt á Alþingi og hefur leitt til skaðabótamála þeirra dómara sem teknir voru af listanum.
Sigríður ræddi aðdraganda afsagnar sinnar í Víglínunni.
„Ég get sagt það heiðarlega að þeir fundir sem ég átti með tilteknu fólki, þeir komu mér á óvart að því leyti að mér fundust bara allir sem ég talaði við vera bara hálf hauslausir. Hafa misst einhvern veginn fótinn og koðnað einhvern veginn niður og menn voru einhvern veginn algjörlega óundirbúnir fyrir þetta,“ sagði Sigríður í dag. Það væri furðulegt.
Hún segir að samstarfsfólk hennar í ríkisstjórn sem hún ræddi við hafi látið málið hlaupa með sig í gönur.
„Einstakir menn ætluðu sér síðan að láta þetta snúast um mína persónu og því ætlaði ég nú ekki að sitja undir, svo sannarlega ekki.“
Krafan um afsögn bar upp á erfiðum tíma í einkalífi Sigríðar.
„Ég var auðvitað í þessum aðstæðum, missti móður mína nokkrum klukkutímum áður, og menn gátu ekki einu sinni virt mér það til vorkunnar í nokkra daga. Að leyfa rykinu að setjast, það þarf oft að gera það. Lesa til dæmis þennan dóm. Fá smá greiningu.“
Hún segist ekki gera neina kröfu um ráðherrastól í ríkisstjórninni, enginn geti gert kröfu um slíkt og það hafi hún aldrei gert. Hún stefnir hraðbyri á framboð í kosningum næsta haust.
Aðspurð hvort henni þætti að farið hefði verið illa með sig sagðist Sigríður ekki þekkt fyrir að fara í fórnarlambsgír.
„Svona eru stjórnmálin. Þeir sem hafa ekki hrygginn í að standa í þessu eiga ekki að vera í stjórnmálum. Það sem upp úr stendur er dómur kjósenda og hann óttast ég ekki.“
Þá ræddi Sigríður Á. Andersen hvernig hún hefði þurft að hafa mikið fyrir því að „særa út þetta excel-skjal sem var svo frægt.“ Vísar hún þar til skjals þar sem umsækjendur fengu einkunnir í ákveðnum þáttum. Sigríður segist sjálf hafa þurft að slá gögnin inn í Excel og skoðað málið.
Hún hefði svo bætt níu reyndum dómurum við lista hinna fimmtán og svo valið málefnanlega, meðal annars með aðstoð sérfræðinga, lokalista yfir fimmtán dómaraefni við Landsrétt.
Að neðan má sjá Sigríði Á. Andersen í Víglínunni í dag.