„Þeir eru auðvitað að halda þessu máli gangandi að einhverju leyti og svona reyna að komast inn í það með sínum hætti. En maður sér ekki að þetta sé tilboð sem er sett fram með væntingum um að því sé endilega tekið svona eins og það er lagt fram. Það efast ég nú um þannig að þetta er svona pólitískt útspil,“ segir Eiríkur.
Píratar lýstu því yfir í gær að þeir myndu styðja minnihlutastjórn Vinstri grænna og Framsóknar gegn því að gengið verði til kosninga í vor. Þeir segja að um sé að ræða sáttarhönd í kjölfar þess að fjármálaráðherra mætti í samkvæmi í Ásmundarsal á Þorláksmessu, en flokkurinn hefur farið fram á afsögn ráðherrans vegna málsins.
Aðspurður hvað Píratar hafa upp úr því að leggja fram slíkt tilboð segir hann að flokkurinn sé að minna á sig nú þegar styttist í kosningar.
„Þeir halda málinu vakandi og þeir svona stilla sjálfum sér fram sem ákveðnum valkosti í aðdraganda kosninga og minna fólk á stöðu sína á þinginu með þessu þannig að þeir fá heilmargt pólitískt út úr umræðunni um svona mál.“
Tilboðið sé nokkuð óraunhæft.
„Auðvitað er líka kannski einhvers konar veik von um að það sé hægt að fella þessa ríkisstjórn þó svo það sé í sjálfu sér ekkert í spilunum sem bendir til þess að það sé sérstaklega raunhæft akkúrat á þessari stundu,“ segir Eiríkur.
Hann segir ekkert benda til þess að VG og Framsókn samþykki tilboðið.
„Nei, það er ekkert í augnablikinu sem bendir til þess að þeir myndu samþykkja þetta og forsætisráðherra hefur þannig lagað gefið út að hún sé tilbúin til að halda þessu stjórnarsamstarfi áfram fram að kosningum í haust,“ segir Eiríkur.
„Ég myndi túlka þetta fyrst og fremst sem pólitískt útspil fyrir umræðuna frekar heldur en að því sé ætla að velta stjórninni.“