Handbolti

Topplið Vals styrkir sig

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þorgeir Bjarki og Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, við undirsrift þess fyrrnefnda.
Þorgeir Bjarki og Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, við undirsrift þess fyrrnefnda. Vísir/Valur

Hinn 23 ára gamli Þorgeir Bjarki Davíðsson er genginn í raðir Vals frá HK. Mun hann leika með Val í Olís deild karla í handbolta á næstu leiktíð. Gildir samningur hans til tveggja ára.

Þorgeir Bjarki er hornamaður að upplagi og lék alla 20 leiki HK í Olís deild karla á nýafstaðinni leiktíð. Skoraði hann 47 mörk fyrir Kópavogsliðið sem endaði í næstneðsta sæti deildarinnar og mun því leika í næst efstu deild á næstu leiktíð. 

Valur var hins vegar í efsta sæti Olís deildarinnar þegar kórónufaraldurinn skall á og í kjölfarið ákvað handknattleikssamband Íslands að aflýsa leiktíðinni.

Áður en Þorgeir hélt til HK var hann í herbúðum Fram en hann er uppalinn í Gróttu á Seltjarnarnesi. Þá hefur hann leikið með öllum yngri landsliðum Íslands. Hann fær nú tækifæri til að láta ljós sitt skína í sterku Valsliðið á komandi leiktíð.

Þá tilkynnti Valur einnig að Þorgils Jón Svölu Baldursson hafi skrifað undir nýjan tveggja ára samning við félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×