Viðskipti erlent

Efast um skjótan efnahagsbata að faraldri loknum

Kjartan Kjartansson skrifar
Jens Weidmann, seðlabankastjóri Þýskalands, varar við of mikilli bjartsýni á að efnahagslífið takið við sér strax.
Jens Weidmann, seðlabankastjóri Þýskalands, varar við of mikilli bjartsýni á að efnahagslífið takið við sér strax. Vísir/EPA

Takmarkanir til að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins verða að líkindum við lýði í lengri tíma og því er ósennilegt að hagkerfi Evrópu taki hratt og vel við sér á næstunni. Seðlabankastjóri Þýskalands á þó von á því að stöðugur efnahagsbati náist þegar faraldurinn er um garð genginn að fullu.

Mikill samdráttur hefur orðið vegna faraldursins og takmarkana eins og samkomu- og útgöngubanns sem gripið hefur verið til um víða storð undanfarnar vikur og mánuði. Atvinnuleysi hefur einnig aukist verulega, ekki síst í þjónustugreinum þar sem starfsemi hefur raskast verulega.

Jens Weidmann, seðlabankastjóri Þýskalands og stjórnarmaður í Seðlabanka Evrópu, varar við því að ekki sé hægt að gera ráð fyrir skjótum efnahagsbata á næstunni vegna þess að takmarkanir muni áfram þurfa að vera í gildi lengi enn.

Hann telur ennfremur að of snemmt sé fyrir þýsk stjórnvöld að ráðast í efnahagslegan aðgerðapakka til þess að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað því tilmæli um félagsforðun takmarki áhrif slíkrar innspýtingar, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

„Það væri vit í efnahagsinnspýtingu ef batinn tæki ekki almennilega við sér seinna meir,“ segir Weidmann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×