Innlent

85 ára með beinar útsendingar frá Lírukassanum sínum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Jóhann, sem er 85 ára gamall er mjög tæknivæddur og finnst ekkert mál að vera með beinar útsendingar og spila þar fyrir fólk út um allan heim. Hann kynnir lögin ítarlega og segir frá höfundum lags og texta.
Jóhann, sem er 85 ára gamall er mjög tæknivæddur og finnst ekkert mál að vera með beinar útsendingar og spila þar fyrir fólk út um allan heim. Hann kynnir lögin ítarlega og segir frá höfundum lags og texta. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Jóhann Gunnarsson, áttatíu og fimm ára íbúi í Hveragerði lætur ekki deigan síga þó hann geti ekki spilað á lírukassann sinn opinberlega vegna heimsfaraldursins því í staðinn hefur hann boðið upp á beinar útsendingar frá tónleikum sínum í gegnum Facebook.

Jóhann hefur spilað í mörg ár á lírukassa, sem hann smíðaði sjálfur. Hann hefur oft haldið tónleika í Hveragerði fyrir fullu húsi en nú þegar það er ekki hægt þá hefur hann boðið upp á nokkrar beinar útsendingar síðustu vikur frá heimili sínu þar sem hann spilar fullveldislög og fólk syngur með heima.

„Þetta er verulega skemmtilegt tómstundagaman. Lírukassi er pípuorgel með tiltölulega fáum nótum. Það er blásið í þær með físibelg, sem er í kassanum. Lagið er forritað annað hvort pappa ræmu eða pappaspjald eða eins og er í mínum á tölvuspjald og hugbúnað,“ segir Jóhann.

Jóhann segir að það standi ekki til að vera með fleiri beinar útsendingar, fimm sé nóg, en fái hann nógu margar árskornir þá gæti meira en vel verið að hann smellti í sjöttu útsendinguna.

„Já, það fer eftir því hvað þær verða margar,  ég þarf svolítið margar," segir Jóhann og glottir út í annað.

Jóhann Gunnarsson, Lírukassaspilari í Hveragerði, sem hefur farið á kostum í beinum útsendingum heiman frá sér síðustu vikur.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×