Fótbolti

Víta­klúður Al­freðs hjálpaði Neu­er að jafna met Kahn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Vítaspyrna Alfreðs fór forgörðum um helgina og Neuer hélt hreinu í 196. deildarleik sínum á ferlinum.
Vítaspyrna Alfreðs fór forgörðum um helgina og Neuer hélt hreinu í 196. deildarleik sínum á ferlinum. Getty/Sven Hoppe

Manuel Neuer, markvörður Bayern München og þýska landsliðsins, jafnaði um helgina met Oliver Kahn yfir fjölda leikja án þess að fá á sig mark. Getur hann þakkað Alfreð Finnbogasyni fyrir að þurfa ekki að bíða lengur.

Bayern vann 0-1 útisigur á Augsburg um helgina. Robert Lewandowski skoraði mark Þýsklands- og Evrópumeistaranna úr vítaspyrnu þegar þrettán mínútur voru liðnar af leiknum. Alfreð fékk gullið tækifæri til að jafna metin er Augsburg fékk vítaspyrnu þegar tæpar fimmtán mínútur lifðu leiks.

Alfreð brenndi af og leiknum lauk með 1-0 sigri Bæjara. Þar með hefur hinn 34 ára gamli Manuel Neuer spilað 196 deildarleiki án þess að fá á sig mark. Bæjurum hefur gengið illa að halda marki sínu hreinu það sem af er tímabili en þetta var aðeins í þriðja skipti sem þeim tekst það í deildinni.

Þó Neuer hafi leikið í treyju Bayern að því virðist í ár og öld þá hóf hann ferilinn með Schalke 04 og gekk á endanum í raðir meistaranna árið 2011. Það má segja að snemma hafi verið ljóst í hvað stefndi en á sinni fyrstu leiktíð í þýsku úrvalsdeildinni þá hélt markvörðurinn magnaði marki sínu hreinu í alls 13 af 27 leikjum. 

Síðan þá hafa 183 leikir bæst við þar sem hann fær ekki á sig mark.

Það er því aðeins tímaspursmál hvenær Neuer bætir met goðsagnarinnar Oliver Kahn sem lék einnig á sínum tíma með Bayern sem og þýska landsliðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×