Innlent

Ekið á stúlku sem var að koma úr strætó

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Stúlkan var að koma úr strætó í Árbæ. Myndin er úr safni.
Stúlkan var að koma úr strætó í Árbæ. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Laust fyrir klukkan hálfsex í gærkvöldi barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um að ekið hefði verið á þrettán ára stúlku í Árbæ. Hafði stúlkan verið að koma úr strætó þegar ekið var á hana.

Í dagbók lögreglu segir að stúlkan hafi kennt eymsla í fæti og var hún flutt með sjúkrabíl til aðhlynningar á bráðadeild. Hafði stúlkan sjálf samband við móður sína sem ætlaði að hitta hana á spítalanum.

Klukkan rúmlega níu í gærkvöldi var svo tilkynnt um konu sem var að reyna að ná lyfjum úr apóteki í Kópavogi.

Konan sagðist vera að sækja lyf fyrir mann sem kannaðist þó ekkert við konuna. Þá er konan einnig grunuð um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna og fleira. Hún var handtekin og færð í fangageymslu fyrir rannsókn málsins.

Skömmu eftir klukkan 23 var tilkynnt um umferðaróhapp í Hlíðahverfi í Reykjavík. Þar var bíl ítrekað ekið á vegrið en ökumaður bifreiðarinnar hafði áður ekið á móti rauðu ljósi, farið gegn einstefnu og ekki sinnt merkjagjöf lögreglu þegar stöðva átti akstur hans.

Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þá hafði hann ekki gild ökuréttindi. Hann var handtekinn og færður í fangageymslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×